Fjórir Ólympíufarar taka þátt í sundkeppni Reykjavík International Games um helgina
Sundkeppni Reykjavik International Games fer fram dagana 28. – 30. janúar í Laugardalslaug. Þrátt fyrir heimsfaraldur og sóttvarnartakmarkanir kemur til landsins myndarlegur hópur af góðu sundfólki. Þar á meðal eru fjórir Ólympíufarar og verðlaunahafar frá alþjóðlegum stórmótum. Flest allt besta sundfólk landsins mun einnig taka þátt mótinu, þar á meðal stöllurnar Eva Margrét Falsdóttir og Freyja Birkisdóttir sem báðar unnu til verðlauna á Norðurlandamótinu í desember. Stór hluti af landsliðshópum SSÍ tekur þátt í mótinu og heldur svo í æfingabúðir til Tenerife á miðvikudaginn.
Stærstu nöfnin á mótinu um helgina eru:
Emilie Beckmann frá Danmörku (https://www.fina.org/athletes/1035845/wd)
Ein sterkasta sundkona Norðurlanda með 10 verðlaun frá Evrópumeistaramótum og 1 verðlaun frá Heimsmeistaramóti. Emilie á 8. besta tímann í 50 metra flugsundi í Evrópu frá upphafi.
Tobias Bjerg frá Danmörku (https://www.fina.org/athletes/1051251/wd/medals)
Besta afrek hans er brons verðlaun á Evrópumeistaramóti Unglinga í 50 metra bringusundi árið 2015. Tobias var fyrsti danski sundmaðurinn til að synda undir eina mínútu í 100 metra bringusundi í 50 metra braut, í þeirri grein á hann 18. besta tímann í Evrópu frá upphafi.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir sundkona ársins á Íslandi 2021 og fánaberi Íslands á Ólympíuleikunum í Tókýó. Snæfríður synti mjög vel í fyrra og komst í fyrsta sinn í 16 manna úrslit á Evrópumeistaramóti og keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum þar sem hún stóð sig með prýði.
Karonline Sørensen frá Danmörku er besta baksundskona Danmerkur um þessar mundir. Karoline tryggði sér farseðillinn á sína fyrstu Ólympíuleika í fyrra og var hluti af dönsku boðsundsveitinni í 4x100 metra fjórsundi.
Rasmus Nickelsen frá Danmörku er einn efnilegasti sundmaður norðurlanda um þessar mundir. Hann gerði sér lítið fyrir og vann gull í 100 metra flugsundi á Ólympíudögum Evrópuæskunnar í Baku árið 2019. Rasmus á fjölda unglingameta í Danmörku, synti til úrslita í fleiri greinum á Evrópumeistaramóti unglinga í fyrra og var hársbreidd frá því að tryggja sér farseðillinn á Ólympíuleikana í Tókýó.
Allar upplýsingar um mótið er að finna á heimasíðu SSÍ http://www.sundsamband.is/default.aspx?PageID=0bbd16f2-e0aa-11eb-9ba0-005056bc703c&