Beint á efnisyfirlit síðunnar

Aldursflokkameistaramót Íslands 2024

Velkomin á upplýsingasíðu Aldursflokkameistaramóts Íslands 2024

 

 

---> Bein úrslit og ráslistar <---

Athugið að ráslistar verða uppfærðir eftir hvern hluta

 

—> streymi <—

 


Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi 2024 (AMÍ 2024) verður haldið í Vatnaveröld, Reykjanesbæ dagana 28-30. júní nk. Mótið er SSÍ mót sem að þessu sinni er haldið í samstarfi við Íþróttabandalag Reykjanesbæjar. 

Skráningarfrestur á mótið er til og með 12. júní og skal skila með tölvupósti á sundmot@iceswim.is
Skráning í matar- og gistipakka er til og með 12. júní og skal fylla út formið hér að neðan.

Mótssetning fer fram á fimmtudagskvöldið kl. 20.00 og eru nánari upplýsingar um það í matar- og gistipakkanum hér að neðan.

 

Starfsmannaskráning

 

Skráning í mat og gistingu

Aldursflokkameistaramót Íslands í sundi

1.grein

Aldursflokkameistaramót Íslands – AMÍ er haldið árlega síðari hluta júnímánaðar.

 

2. grein

Mótið er haldið í 25 metra laug með að lágmarki 5 brautum. Mótinu er skipt í fimm hluta. Þá daga sem mótið fer fram er óheimilt að stofna til annarrar sundkeppni meðal sambandsaðila SSÍ. Leitast skal við að halda mótið utan höfuðborgarsvæðins og skal skipting milli landshluta vera með eftirfarandi hætti:

  • Svæði 1: austur og norður (höfuðborgarsvæðið ef ekkert annað lið sækir um)
  • Svæði 2: vestur og suður (höfuðborgarsvæðið ef ekkert annað lið sækir um)

Til nánari útskýringar:  Ef mótið er haldið á svæði 1 á fyrsta ári skal það haldið á svæði 2 árið eftir og svo koll af kolli. Sæki ekkert félag á viðkomandi svæði sem á réttinn það árið, er heimilt að halda mótið á höfuðborgarsvæðinu eða úthluta því til félaga frá öðrum landshlutum sæki þau um að halda mótið.  

 

3. grein

Lágmörk á Aldursflokkameistaramótið eru ákveðin af stjórn SSÍ. Lágmörk eru gefin út árlega fyrir hvern árgang, 11-15 ára. Stjórn SSÍ hefur tillögur þjálfaranefndar SSÍ og yfirmanns landsliðsmála til hliðsjónar við ákvörðun sína um lágmörk.

Lágmörk skulu gefin út í eftirfarandi greinum:

Flokkur 1: 100m skriðsund og 100m fjórsund (11 ára og yngri)

Flokkur 2: 200m skriðsund og 100m fjórsund (12 – 13 ára)

Flokkur 3: 200m skriðsund og 200m fjórsund (14 – 15 ára)

Keppendur í öllum aldursflokkum öðlast keppnisrétt á mótinu með því að ná a.m.k. öðru af útgefnum lágmörkum í sínum aldursflokki og þurfa, að lágmarki, að keppa í einni grein sem þeir ná lágmarki í. Þeir mega keppa í allt að fimm einstaklingsgreinum auk boðsunda, að því tilskyldu að eiga löglegan tíma í greininni sem ekki er eldri en frá sama móti árinu áður.

Lið sem eiga færri keppendur á AMÍ en fjóra geta sótt um að bæta við keppendum óháð lágmörkum á AMÍ þó þannig að heildarfjöldi keppenda þeirra félaga verði ekki fleiri en fjórir. Þeir keppendur sem þannig fá keppnisrétt á AMÍ mega keppa í allt að þremur 50-200 metra einstaklingsgreinum, að uppfylltu því skilyrði að eiga löglegan tíma í greininni sem ekki er eldri en frá sama móti árinu áður.

Umsóknir um ofangreindar undanþágur þurfa að berast skrifstofu SSÍ a.m.k. 15 dögum áður en mót hefst.

 

4. grein

AMÍ er aldursflokkaskipt meistaramót í sundi þar sem keppt er beint til úrslita.  

Karlaflokkar:

  1. 11 ára og yngri
  2. 12 – 13 ára
  3. 14 – 15 ára

Kvennaflokkar:

  1. 11 ára og yngri
  2. 12 – 13 ára
  3. 14 – 15 ára

 

5. grein

Mótið er stigakeppni félaga. Tveir hröðustu einstaklingar hvers félags í hverri grein og aldursflokki geta tekið stig fyrir félagið. Stig eru gefin miðað við sætaröð keppenda. Í boðsundum er keppt í aldursflokkum og stig gefin miðað við sætaröð boðsundssveita í lok greinar. 

Hverju félagi er heimilt að senda tvær sveitir til keppni í hverri boðsundsgrein í aldursflokki, en einungis önnur (hraðari) sveitin getur tekið stig fyrir félagið.



 

8 hröðustu einstaklingarnir í hverri grein og aldursflokki eða 8 hröðustu boðsundssveitirnar í hverjum aldursflokki fái stig.  Stig fyrir boðsund er tvöföld miðað við einstaklingsgreinar.

Stigin eru reiknuð á eftirfarandi hátt:

  1. sæti 10 stig (boðsund 20 stig)
  2. sæti 8 stig (boðsund 16 stig)
  3. sæti 6 stig (boðsund 12 stig)
  4. sæti 5 stig (boðsund 10 stig)
  5. sæti 4 stig (boðsund 8 stig)
  6. sæti 3 stig (boðsund 6 stig)
  7. sæti 2 stig (boðsund 4 stig)
  8. sæti 1 stig (boðsund 2 stig)

Verði félög jöfn að stigum í heildarstigakeppni félaga skulu stig fyrir boðsund ráða sæti félagana. Verði félög þá ennþá jöfn að stigum skal hlutkesti ráða röð félaga.

 

6. grein

Á AMÍ eru veitt verðlaun fyrir fyrsta til sjötta sæti í einstaklingskeppni miðað við aldursflokka sem taldir eru upp í fjórðu grein, en sá sem á besta tímann í greininni miðað við aldursflokk hlýtur sæmdartitilinn Aldursflokkameistari Íslands í þeirri grein.  Í boðsundum skal veita verðlaun fyrir fyrsta til þriðja sæti í aldursflokkum.

Aldursflokkaverðlaun einstaklinga eru veitt þeim keppendum sem ná bestum samanlögðum árangri samkvæmt stigatöflu WORLD AQUATICS eftirfarandi:

Flokkur 1: Engin stigaverðlaun, allir keppendur fá sérstaka viðkenningu fyrir þátttöku á AMÍ

Flokkur 2: 200m skriðsund, 100m fjórsund ásamt stigahæstu grein þar fyrir utan (12 ára & 13 ára)

Flokkur 3: 200m skriðsund, 200m fjórsund ásamt stigahæstu grein þar fyrir utan (14 ára & 15 ára)

 

7.grein

SSÍ ákveður greinaröðun og tilkynnir a.m.k. einum mánuði áður en mót hefst.

Miða skal við að eftirfarandi greinar séu í boði fyrir meðfylgjandi aldursflokka. Sundfólk syndir eingöngu í sínum aldursflokki í einstaklingsgreinum:

Flokkur 1: (11 ára og yngri)

50 metra flugsund, 50 metra baksund, 100 metra baksund, 50 metra bringusund, 100 metra bringusund,
50 metra skriðsund, 100 metra skriðsund og 100 metra fjórsund

Boðsund: 4x50 metra fjórsund, 4x50 metra skriðsund og 4x50 metra skriðsund blandað

 

Flokkur 2: (12-13 ára)

100 metra flugsund, 100 metra baksund, 200 metra baksund, 100 metra bringusund, 200 metra bringusund, 100 metra skriðsund, 200 metra skriðsund, 400 metra skriðsund, 100 metra fjórsund og 200 metra fjórsund.

Boðsund: 4x50 metra fjórsund, 4x100 metra skriðsund og 4x50 metra skriðsund blandað

 

Flokkur 3: (14-15 ára)

100 metra flugsund, 200 metra flugsund, 100 metra baksund, 200 metra baksund, 100 metra bringusund,
200 metra bringusund, 100 metra skriðsund, 200 metra skriðsund, 400 metra skriðsund, 800 metra skriðsund,
200 metra fjórsund og 400 metra fjórsund

Boðsund: 4x100 metra fjórsund, 4x100 metra skriðsund og 4x50 metra skriðsund blandað

 

8.grein

Síðasta grein mótsins er 10x50 metra skemmtiboðsund, sem ekki telur til stiga í stigakeppni félaga. Félögum er heimilt að sameinast um sveitir.