Fyrsta degi á AMÍ lokið - ÍRB með afgerandi forystu í stigakeppni félaga
Þá er fyrsta degi á AMÍ á Akureyri lokið. 20 greinar hafa verið syntar í aldursflokkunum stúlkur og piltar 15 ára, telpur og drengir 13-14 ára, meyjar og sveinar 11-12 ára og hnátur og hnokkar 10 ára og yngri.
Því verður ekki á móti mælt að Íþróttabandalag Reykjanesbæjar leiði stigakeppni félaga á afgerandi hátt. Liðið hefur áunnið sér 380 stig eftir 20 greinar, 189 stigum fleiri en Sundfélagið Ægir sem er í öðru sæti með 191 stig. Það má segja að mesta spennan sé um þriðja sætið en þar berjast Sundfélag Hafnarfjarðar og Sundfélagið Óðinn um sætið. Í lok dagsins var SH með 158 stig í þriðja sæti en Óðinn með 156 stig í fjórða. Liðin höfðu skipst á sætum nokkrum sinnum yfir daginn.
Veðrið á Akureyri var ágætt í síðari keppnishlutanum en það rigndi töluvert á okkur í morgun.