Dr. Julio Maglione endurkjörinn forseti FINA - startbúnaður fyrir baksund samþykktur
26.07.2013Dr. Julio Maglione var endurkjörinn forseti FINA á ársþingi FINA sem lauk í hádeginu í dag. Hann var einn í framboði og það sama má segja um alla aðra sem voru í kjöri til stjórnar FINA. Í fyrsta skipti í mörg ár er enginn frá norðurlöndunum í stjórn FINA og óvíst með hversu marga norræna blokkin fær í starfsnefndir FINA á þessu kjörtímabili.
Á þinginu voru uppfærðar og gerðar minniháttar breytingar og orðalagsbreytingar á lögum FINA (Constitution og General Rules), auk þess sem mannvirkja- og tækjareglur (Facilities Rules) FINA voru lagaðar til.
Einstaka breytingar voru þau veigameiri en aðrar td að kynblönduð boðsund eru nú orðin fastur liður á HM25 og HM50, en tillaga um að skylda FINA til að hafa "underwater" myndavél til að aðstoða dómara á ÓL og HM var felld. Þá var gerð sú breyting á mannvirkjareglum að laugar eru nú mældar með nákvæmni upp á 1/1000 úr metra.
Mesta breytingin er samt sú að nú má hafa sérstakar startblokkir fyrir baksundsfólk. Töluverð umræða varð um þetta atriði.
Þetta þing FINA var frekar rólegt og nokkur sátt virðist ríkja innan allra heimsálfanna nema Evrópu.
Til baka