Árangurinn í samræmi við undirbúning
30.07.2013Að sögn Jacky Pellerin landsliðsþjálfara er árangur keppendana á HM50 fram til þessa í samræmi við þann undirbúning sem hefur farið fram.
Anton fann sig vel í 400 metra skriðsundinu í upphafi og á eftir að synda 200 metra bringusund og auðvitað 400 metra fjórsund. Við eigum eftir að sjá hvað þessi tími í 800 metra skriðsundi gefur honum í sæti.
Eygló er fyrst og fremst að stefna á góðan árangur í 200 metra baksundi sem fer fram á föstudag, en hún er nú þegar búin að synda þrjár greinar í beit á þremur dögum.
Hrafnhildur er einnig mjög góð 200 metra bringusundkona, hún átti ágætt 100 metra bringusund í gær og syndir 200 metrana á morgun. Hrafnhildur á svo 50 metra bringusund á laugardag.
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir er sú eina af íslensku keppendunum sem hefur ekki stungið sér til keppni ennþá hér í Barcelona. Jacky segir hana vera í góðu formi og vel einbeitta þannig að við búumst við góðum árangri hjá henni á morgun í 50 metra baksundi og á föstudag í 50 metra skriðsundi.
Öllum íslensku keppendunum hér á HM líður vel og þau gæta vel að sér í hvíld og matarræði. Unnur Sædís sjúkraþjálfari hefur fyrst og fremst verið í að mýkja vöðva og nudda.