Frumútgáfa atburðadagatals komin út
Ekki er hægt að gefa endanlegt dagatal fyrr en eftir þing Evrópska sundsambandsins, sem haldið verður í lok september, því enn er óvíst með ákveðna liði sem eru á þeirra forræði. Þar er til að mynda um að ræða að óvíst er með staðsetningu móta auk þess sem dagsetningar verða ekki endanlegar fyrr en á þinginu. Þá hafa borist fregnir af því að til standi að færa EM50 fram yfir miðjan ágúst 2014, en það gæti þýtt töluverðar breytingar á áætlunum okkar.
Öll SSÍ mót eiga að vera komin með rétta dagsetningu (þó með fyrri fyrirvara) og það er verið að semja við þau félög sem sóttu um og fengu mótahald á vegum sambandsins. Á þessu sundári verður fitjað upp á þeirri nýjung að setja af stað keppni um Íslandsmeistaratitil félaga. Það þýðir að ákveðin mót verða viðurkennd í þeirri mótaröð og félög geta valið mót sem henta þeim í þá keppni eftir ákveðnum reglum. Þetta mun hafa þann kost í för með sér að sundmót verða styrkhæf úr ferðasjóði ÍSÍ.
Verið er að vinna að reglugerðum sem þarf að lagfæra og bæta eftir reynslu síðasta sundárs. Þær verða kynntar félögum á allra næstu dögum og síðan birtar hér á síðunni þegar þær hafa verið endanlega staðfestar.
Við erum einnig að vinna að lágmörkum og viðmiðum fyrir landsliðsverkefni, en okkur þykir rétt að ráðfæra okkur við starfandi þjálfara auk þess sem landsliðsnefnd á eftir að fara endanlega yfir þau ásamt landsliðsþjálfara. Engu að síður verða tillögur lágmörkin send til félaga nú um eða strax eftir helgi, þannig að sem flestir geti lokið áætlunum fyrir veturinn og sett sér markmið.