Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sjósundgarpur ársins 2013 - útgerðirnar keppa á laugardaginn

26.09.2013

Sjósundkeppni fer fram í Nauthólsvík laugardaginn 28.9.2013. Þar keppa útgerðarfyrirtækin um titilinn „Sjósundgarpur Íslands 2013“.   Keppnin er samstarfsverkefni Sundsambands Íslands, Landhelgisgæslunnar og ÍTR.

Keppnin fer þannig fram að keppendur (fulltrúar útgerðarfyrirtækja) stinga sér til sund frá varðskipinu Baldri, sem siglt verður inn í Nauthólsvíkina, og synda í land en endamarkið er á sandströndinni í Nauthólsvík við pottinn. Vegalengdin sem synd er  100 metrar.

Dagskrá:
Kl. 13.00 synda meðlimir Sjór (Sjósund- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur), sem er aðildarfélag að Sundsambandi Íslands, 260 metra vegalengd. Veitt verða verðlaun fyrir skrautlegasta höfuðfatið.

Kl. 14.00 hefst keppni milli útgerðarfélaga þar sem synt verður frá varðskipinu Baldri í land. Sigurvegari er „Sjósundgarpur Íslands 2013“. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar fylgja sundmönnum eftir á gúmmíbátum og er kafari tilbúinn til taks.

Kl. 15.00 verður Menntamálaráðherra hent í sjóinn og sýnir áhöfn þyrlunnar nýstárlega björgun þar sem viðkomandi er veiddur upp úr sjónum með þar til gerðu neti.

Markmiðið er að vekja athygli á fjölbreyttu starfi Sundsambands Íslands, öryggi sjómanna og mikilvægi þess að kunna að synda.

En afhverju stendur SSÍ fyrir sjósundkeppni útgerða á laugardaginn?   Það er mikilvægt að kynna sund og minna á hversu mikilvægt það er fyrir Íslendinga að kunna að synda og bjarga sér.  Að auki SSÍ er að vinna að því að koma upp Lífbjörgunardeild innan sambandsins að Evrópskri fyrirmynd og við erum að gera okkur gildandi í norrænu samstarfi um Lífbjörg og verðum vonandi meðlimir í Evrópusamtökunum um Lífbjörg fyrir árslok.  Landhelgisgæslan er að kynna nýjungar í björgun úr sjó og ÍTR er að vekja athygli á frábærri aðstöðu sem rekin er í Nauthólsvík.  

Framundan hjá SSÍ er árleg keppni milli Íslands og Færeyja fer fram í Færeyjum laugardaginn 5. október og sömu helgi heldur SSÍ í samvinnu við Sf Ægi Norðurlandameistaramót garpa, í Laugardalslaug.

Undirbúningur fyrir Íslandsmeistaramót, Evrópumeistaramót og Norðurlandameistaramót í stuttu brautinni (25m) í nóvember og desember er á fullu og auðvitað erum við alltaf að búa okkur undir stóru mótin, EM, HM, Smáþjóðaleika og Ólympíuleika.

Í maí tekur Ísland við forsæti í Norræna sundsambandinu (Ísland, Færeyjar, Noregur, Svíþjóð, Finnland og Danmörk) og við höfum í samstarfi við norrænu vini okkar mannað tvær nefndir LEN Evrópska sundsambandsins, sundtækninefndina og garpanefndina.

SSÍ er í stöðugri þróun og undir sambandið heyra eftirtaldar íþróttagreinar:  Keppnissund, garpasund, sundknattleikur, víðavatnssund, dýfingar og samhæfð sundfimi þannig að verkefnin eru ærin.  Að auki höfum við í samstarfi við HÍ látið útbúa námsefni fyrir þjálfara sem hægt er að sækja á netið.  Það þýðir að þjálfari sem ætlar að sækja sér réttindi getur tekið bóklega hluta ÍSÍ og SSÍ á netinu og kemu einungis 2 helgar í verklega kennslu í stað 12 áður.



 

Myndir með frétt

Til baka