Sjósundgarpur 2013 - útgerðarkeppni SSÍ
01.10.2013Um síðustu helgi fór fram keppni milli útgerðarfélaga í sjósundi. SSÍ stóð fyrir keppninni ásamt Landhelgisgæslunni og ÍTR. Keppnin var haldin í frábærri aðstöðu ÍTR í Nauthólsvík og tókst mjög vel með dyggri aðstoð SJÓR, Sjósund- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur.
Í upphafi syntu 40 félagar úr SJÓR 260 metra þar sem þeir kepptu um hver væri með frumlegasta höfuðfatið.
Í framhaldi af því kepptu 10 fulltrúar útgerðarfélaganna um titilinn Sjósundgarpur Íslands 2013. Þar varð hlutskarpastur Árni Guðnason en hann var fulltrúi Hvals í keppninni. Í öðru sæti varð Davíð Davíðsson fulltrúi HB Granda.
SSÍ þakkar þátttakendum kærlega fyrir góða skemmtun og Landhelgisgæslunni og ÍTR/Reykjavíkurborg fyrir frábært samstarf. Við sjáumst að ári í Nauthólsvíkinni.