Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍM25 í fullum gangi

23.11.2013

Annar dagurinn er hafinn á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug.

Dagurinn hófst í 200m skriðsundi þar sem Ólafur Sigurðarson úr SH setti nýtt drengjamet þegar hann synti á tímanum 1.57,43 mínútum. Gamla metið átti hann sjálfur frá því í september síðastliðnum, 1.59,98 mínútur. Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðablik setti sveinamet í 50m baksundi, 30,82 sekúndur. Gamla metið var 31,58 sem Brynjólfur sjálfur setti í maí á þessu ári.

Í lok hlutans var svo keppt í beinum úrslitum í 4x50m fjórsundsboðsundi í blönduðum flokki karla og kvenna, í fyrsta sinn á Íslandsmeistaramóti. Í fyrri riðlinum synti B sveit SH á nýju Íslandsmeti 1.57,49. Sveitina skipuðu þau Ásdís B. Guðnadóttir, Orri Freyr Guðmundsson, Predrag Milos og Guðný Erna Bjarnadóttir. Í seinni riðlinum kom svo A sveit Ægis fyrst í mark á tímanum 1.47,69 og bættu þar með um fjögurra mínútna gamalt met SH sveitarinnar. Sveit Ægis skipuðu Eygló Ósk Gústafsdóttir, Jakob Jóhann Sveinsson, Inga Elín Cryer og Birkir Snær Helgason.

Þess ber svo að geta að í gær gleymdist að tilkynna um þrjú aldursflokkamet. Brynjólfur Óli Karlsson tvíbætti sveinametið sitt í 200m baksundi, fyrst í undanrásum – 2.23,14 og svo í úrslitum 2.19,72. Fyrir mótið var í gildi hans eigið met 2.23,68 frá því í september síðastliðnum. Kristinn Þórarinsson bætti einnig sitt eigið piltamet í 200m fjórsundi þegar hann synti á tímanum 2.00,70 í úrslitum. Gamla metið var 2:02,49 sem sett var á ÍM25 í fyrra. Í lok úrslitahlutans bætti sveit ÍRB svo meyjamet í 4x200m skriðsundi þegar þær syntu á tímanum 9.23,10. Gamla metið átti ÍRB einnig frá því 2005 en það var 9.49,19. Sveitina í gær skipuðu þær Stefanía Sigurþórsdóttir, Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir, Aníka Mjöll Júlíusdóttir og Klaudia Malesa.

Úrslitahluti dagsins hefst svo kl. 17 í dag og hvetjum við alla til að koma og hvetja sundfólkið okkar áfram í Ásvallalaug í Hafnarfirði.

Við minnum einnig á að hægt er að skoða bein úrslit og sjá útsendingu SportTV með því að smella á tenglana hér fyrir neðan. Útsending hefst kl. 17.

http://sh.lausn.is/mot/2013/im2013/index.htm

www.sporttv.is

Til baka