Síðasta degi ÍM25 lokið - fjögur Íslandsmet
Þriðja og síðasta degi ÍM25 í Ásvallalaug í Hafnarfirði lauk rétt í þessu.
Í undanúrslitum setti Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi nýtt Íslandsmet í 400m fjórsundi þegar hún synti á tímanum 4:46,36 og bætti þar með ársgamalt met Ingu Elínar Cryer sem var 4:47,21.
Eygló Ósk setti svo Íslandsmet í 100m baksundi þegar hún synti á 59,42 og bætti þar með metið sem hún setti í gær þegar hún fór fyrsta sprett í boðsundi . Var þetta fimmta Íslandsmet Eyglóar um helgina og ljóst að hún er í hörku formi.
Í undanrásunum í morgun bætti Bryndís Bolladóttir úr Óðni 16 ára gamalt telpnamet Kolbrúnu Ýrar Kristjánsdóttur þegar hún synti 50m flugsund á tímanum 29,37 en það gamla var 29,63.
Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki bætti svo sveinametið í 100m baksundi í morgun þegar hann synti á tímanum 1:06,63 en gamla metið átti hann sjálfur frá því í september á þessu ári – 1:06,91. Í úrslitunum var hann þó ekki hættur og stórbætti tímann úr undanúrslitunum og setti glæsilegt met 1:03,92.
Sunneva Dögg Friðriksdóttir úr ÍRB setti telpnamet í 1500m skriðsundi þegar hún synti á tímanum 17:16,95. Gamla metið átti hún sjálf - 17:27,72.
Kristinn Þórarinsson úr Fjölni bætti einnig sitt eigið piltamet í 100m fjórsundi í úrslitunum í dag. Hann synti á 56,09 en gamla metið var 57,28 – stórgóð bæting!
Þá var keppt í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki karla og kvenna í fyrsta skipti á Íslandsmeistaramóti. Fyrri riðilinn sigraði B sveit SH þegar þau Sveinn Ólafur Lúðvíksson, Guðný Erna Bjarnadóttir, Kolbeinn Hrafnkelsson og Ásdís B. Guðnadóttir syntu á tímanum 1:44,23 – fyrsta Íslandsmetið sett í greininni.
Í seinni riðlinum synti A sveit SH svo á tímanum 1:39,78 og bættu þar af leiðandi Íslandsmet í greininni. Sveitina skipuðu Predrag Milos, Karen Sif Vilhjálmsdóttir, Snjólaug Tinna Hansdóttir og Aron Örn Stefánsson.
Í úrslitahlutanum 4x100 skriðsundsboðsundi setti B sveit ÍRB nýtt meyjamet þegar þær syntu á tímanum 4:25,20. Gamla metið var 4:30,39 og var í eigu ÍRB frá 2005. Sveitina skipuðu þær Stefanía Sigurþórsdóttir, Aníka Mjöll Júlíusdóttir, Jóhanna Matthea Jóhannesdóttir og Klaudia Malesa.
Við þökkum kærlega fyrir helgina, vonum að allir hafi skemmt sér jafnvel og við hjá SSÍ og óskum um leið öllum sigurvegurum og methöfum til hamingju með árangurinn.
Nú hefst lokahófið í hátíðarsal SH í Ásvallalaug og verða þar kynntir þeir sundmenn sem fara á Norðurlandameistaramót Unglinga og Evrópumeistaramótið í 25m laug í næsta mánuði.