Anton Sveinn og Eygló Ósk fá viðurkenningu frá ÍSÍ - Krístín Rós fær sæti í Heiðurshöllinni
Anton Sveinn Mckee og Eyglól Ósk Gústafsdóttir fengu í kvöld viðurkenningu frá ÍSÍ á hófi sem haldið er til að útnefna Íþróttamann ársins. Hófið var haldið í Gullhömrum og þar voru mættir allir þeir íþróttamenn og konur sem sérsambönd ÍSÍ og sérnefndir útnefndu sem íþróttamenn og íþróttakonur sinna íþróttagreina. Eygló Ósk var fjarri góðu gamni þar sem hún var við keppni í Frakklandi en í hennar stað tók Kristrún systir hennar við viðurkenningunni.
Þá var Kristín Rós Hákonardóttir sundkona úr Fjölni/ÍFR tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ, en hún er sú sjöunda sem hlýtur þann heiður.
Í hófinu var lið ársins útnefnt, Karlalandslið Íslands í knattspyrnu og þjálfari ársins Alfreð Gíslason þjálfari í Þýskalandi ásamt Íþróttamanni ársins Gylfa Þór Sigurðssyni knattspyrnumanni hjá Tottenham í Englandi.
Ýmsar skoðanir koma fram árlega á vali Íþróttamanns ársins. Í þeirri umræðu koma oft fram eðlilegar efasemdir um aðferðafræði valsins, en ekki síður óviðurkvæmilegar fullyrðingar sem fyrst og fremst eru til þess fallnar að rýra orðstýr þess íþróttamanns sem nafnbótina hlýtur. Það segir sig sjálft að við viljum ekki vera hluti af neikvæðri umræðu gagnvart íþróttafólki, en hins vegar er sundhreyfingin tilbúin til samræðna um aðferðafræði á vali ársins á íþróttamanni, þjálfara og liði ársins ef hún fer fram á málefnanlegum forsendum.
Hófið sem haldið er, er annars vegar lokahóf Samtaka Íþróttafréttamanna og hins vegar hóf sem ÍSÍ heldur til að gera upp íþróttir á almanaksárinu gagnvart sínum sérsamböndum. Ólympíufjölskyldan er aðalstyrktaraðili hófsins, en hana skipa Icelandair, Íslandsbanki og Valitor.
Nöfn þeirra sem fengu stig í kjörinu:
1. Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrna – 446 stig
2. Aníta Hinriksdóttir, frjálsar – 288 stig
3. Guðjón Valur Sigurðsson, handbolti – 236 stig
4. Jón Arnór Stefánsson, körfubolti – 206 stig
5. Kolbeinn Sigþórsson, knattspyrna – 189 stig
6. Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrna – 134 stig
7. Alfreð Finnbogason, knattspyrna – 73 stig
8. Helgi Sveinsson, íþr. fatlaðra – 62 stig
9. Auðunn Jónsson, kraftlyftingar – 41 stig
10. Aron Pálmarsson, handbolti – 32 stig
11. Jóhann Rúnar Skúlason, hestaíþróttir – 23 stig
12. Hrafnhildur Lúthersdóttir, sund – 16 stig
13. Norma Dögg Róbertsdóttir, fimleikar – 15 stig
14. Birgir Leifur Hafþórsson, golf – 15 stig
15. Guðbjörg Gunnarsdóttir, knattspyrna – 14 stig
16. Guðmundur Sverrisson, frjálsar – 11 stig
17. Helena Sverrisdóttir, körfubolti – 7 stig
18. Dominiqua Alma Belanyi, fimleikar – 4 stig
19. Eygló Ósk Gústafsdóttir, sund – 4 stig
20. Aron Einar Gunnarsson, knattspyrna – 3 stig
21. Þóra Björg Helgadóttir, knattspyrna – 3 stig
22. Valdís Þóra Jónsdóttir, golf – 2 stig
23. Þórir Ólafsson, handbolti – 1 stig
Lið ársins:
1. A-landslið karla, knattspyrna – 125 stig
2. A-landslið kvenna, knattspyrna – 55 stig
3. Kvennalið Gerplu, hópfimleikar – 20 stig
Þjálfari ársins:
1. Alfreð Gíslason, handbolti – 54 stig
2. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, knattspyrna – 34 stig
3. Gunnar Páll Jóakimsson, frjálsar – 33 stig
Um verðlaunagripinn
Verkið er smíðað með vísun í náttúru Íslands sem mótað hefur þessa þjóð og hennar þrótt. Náttúra Íslands endurspeglast í margvíslegu efni verksins, lögun þess og litbrigðum. Þessir eiginleikar verksins vísa um leið til fjölbreytni íþróttanna og þess styrks og þeirrar þrautseigju sem einkenna afreksmenn íslenskra íþrótta hverju sinni.
Birkið
Birkið kemur úr Hallormsstaðaskógi og vísar til þolgæðis íslenska birkisins. Þessarar plöntu sem vex með jörðu og út úr klettaveggjum gljúfra frekar en að gefa eftir en teygir síðan stofna sína beina til himins þegar heppilegt umhverfi er að finna.
Hraunið
Hraunið í verkinu kemur frá Þingvöllum, þar sem undirstöðu lands og þjóðar er að finna. Þessarar náttúruperlu Íslands og þjóðheilaga staðar þar sem Alþingi var stofnað og viðhaldið með tilheyrandi íþróttaiðkun á hverjum tíma.
Súlurnar
Súlur verksins tákna höfuðáttirnar. Súlan úr silfri í miðjunni hefur eirkjarna sem brýst fram hér og hvar með roðablæ líkt og eldmóður íþróttamannsins og líkt og jarðeldar íslenskrar náttúru. Silfrið stendur í senn fyrir margbreytileika annars frumafls íslenskrar náttúru sem er vatnið – hreyfiafl hvort sem það er fljótandi eða frosið. Súlan endar í silfurskál, sem styður við glerskál sem er tákn þeirrar hreinskipti og þess heiðarleika sem fólginn er í keppnisanda íþróttanna.
Glerið
Glerið er um leið einnig tákngervingur þess að þrátt fyrir allan þann styrk sem í manneskjunni býr, sem og öðrum þáttum náttúrunnar, þá eru þessi sköpunarverk brothætt þegar öllu er á botninn hvolft. Litir glerskálarinnar eiga rætur sínar að rekja til jökla og elda Íslands.
Höfundur og smíði
Höfundur verksins er Sigurður Ingi Bjarnason, gullsmiður. Sér til halds og traust við vinnuna hafði hann góðan hóp manna sem eru gullsmiðirnir Sveinn Gunnarsson, Hans Kristján Einarsson og Sveinn Ottó Sigurðsson. Trésmiðurinn Örn Jónsson og glerblásararnir Jette Böge Sörensen og Rickard Thunberg.