UMÍ 2014 lokið
Keppendur að þessu sinni voru tæplega 100 en heimamenn í SH voru með flesta keppendur eða 22 talsins en ÍRB komu þar næst á eftir með 19 sundmenn.
Á UMÍ keppa sundmenn á aldrinum 15-20 ára og keppt er í tveimur flokkum - 15-17 ára og 18-20 ára. Sundfólki á aldrinum 13-14 ára var einnig boðin þátttaka um helgina en þau kepptu ekki til verðlauna.
Tvö aldursflokkamet voru sett á mótinu en í pilta/stúlknaflokki var það sveit ÍRB sem setti þau bæði. Fyrst í 200m fjórsunds boðsundi í blönduðum flokki þegar þau syntu á tímanum 1:59,34. Sveitina skipuðu þau Íris Ósk Hilmarsdóttir, Karen Mist Arngeirsdóttir, Baldvin Sigmarsson og Þröstur Bjarnason. í 200m skriðsunds boðsundi í blönduðum flokki synti sveitin á 1:48,75 en þá sveit skipuðu þau Baldvin, Sunneva Dögg Friðriksdóttir, Íris Ósk og Þröstur.
Í lok móts voru veittar viðurkenningar til þeirra sundmanna sem náð höfðu flestum FINA stigum í tveimur greinum samanlagt.
Í pilta og stúlknaflokki hlutu þau Þröstur Bjarnason og Sunneva Dögg Friðriksdóttir, bæði úr ÍRB, viðurkenningu og í karla og kvennaflokki voru það þau Kristófer Sigurðsson, ÍRB og Bára Kristín Björgvinsdóttir, SH sem voru stigahæst.
Við þökkum öllu starfsmönnum mótsins kærlega fyrir sitt framlag og vonum að þeir sundmenn sem nú eru farin í sumarfrí njóti vel.