EM50 og YOG
Nú á næstu dögum hefja fjórir íslenskir sundmenn keppni í landsliðsverkefnum erlendis.
Þær Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir, báðar úr SH, halda utan til Berlínar á morgun og munu synda þar á Evrópumeistaramótinu í 50m laug (EM50).
Ingibjörg syndir 50m flugsund, 50m og 100m skriðsund og 50m og 100m baksund á meðan Hrafnhildur syndir 50m, 100m og 200m bringusund. Klaus Jurgen-Ohk fer sem þjálfari. Keppt er í undanrásum, undanúrslitum og úrslitum en keppni hefst mánudaginn 18. ágúst.
Þau Kristinn Þórarinsson, Fjölni og Sunneva Dögg Friðriksdóttir, ÍRB keppa svo á Ólympíuleikum Ungmenna (YOG) í Nanjing í Kína. YOG er verkefni á vegum ÍSÍ og ferðaðist um 30 manna hópur saman til Kína. Auk keppenda í sundi keppir drengjalandslið Íslands í knattspyrnu á leikunum. Arna Þórey Sveinbjörnsdóttir fór sem þjálfari og flokkstjóri sunds.
Keppni í sundi hefst sunnudaginn 17. ágúst en þess má til gamans geta að Sunneva Dögg fær þann heiður að vera fánaberi Íslands á setningarathöfninni á laugardaginn.
Nánari upplýsingar má finna hér á heimasíðu ÍSÍ um leikana.