Michael Phelps settur í sex mánaða bann
Bandaríska sundsambandið hefur þar með ákveðið að Phelps verður ekki í framlínu bandarísks sundfólks næstu sex mánuði, hann missir opinbera styrki á sama tíma auk þess sem margir af hans persónulegu styrktaraðilum virðast hafa fengið nóg af kappanum og dregið úr eða jafnvel alveg hætt styrkjum til hans. Þá hafa mörg góðgerðarmálefni sem Phelps styrkir og ljær nafn sitt orðið fyrir miklu áfalli.
US Swimming hefur einnig bannað Phelps þáttöku í HM50 sem á að fara fram í Kazan, Rússlandi á næsta ári. Það er mikið áfall fyrir hann, á HM hefði hann getað girt sig í brók og sýnt hvað í honum býr í aðdraganda ÓL í Ríó 2016. Það verður ekki raunin að því er virðist og hann þarf því að vinna upp ferilinn sinn og orðstír án þess að vera stjarnan á HM50 í Kazan.
Ástæða þessa alls er að hann var tekinn fyrir ölvunarakstur, en það er í annað sinn sem Phelps kemst í fréttir vegna neyslu vímuefna, í fyrra skiptið náðist hann á mynd við að reykja cannabis. Þá lofaði hann bót og betrun en eitthvað klikkaði núna. Nýjustu fréttir af kappanum eru þær að hann hefur innritast í sex vikna meðferðarprógram.