Lokadagur HM, Íslandsmet hjá Hrafnhildi og landsmet í boðsundi
Hrafnhildur Lúthersdóttir setti nýtt Íslandsmet í morgun þegar hún synti 200 metra bringusund á HeM25 í Doha. Hún synti á tímanum 2.22,69 mínútum og bætti eigið Íslandsmet um 1,01 sekúndu en það var frá því í lok ágúst á þessu ári þegar hún keppti á sama stað í WorldCup. Hún varð í 17. sæti af 42 keppendum.
Daníel Hannes Pálsson synti 200 metra flugsund á tímanum 2.02,94 mínútum og bætti sig um 0,92 sekúndur og varð í 41. sæti af 52 keppendum.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson fór svo 200 metra baksund á 2.00,07 mínútum og bætti sig um 2,34 sekúndur og varð í 33. sæti.
Kristinn Þórarinsson varð í 40. sæti af 59 keppendum í sama sundi en hann synti á 2.03,17 mínútum.
Karlasveit Íslands lauk svo keppni fyrir Ísland á mótinu með því að setja landsmet í 4 x 100 metra fjórsundi. Sveitin synti á tímanum 3.43,16 mínútum og varð í 18. sæti af 23 þjóðum. Sveitina skipuðu þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson sem fór fyrsta sprett á 54,63 sekúndum (baksund), Kristinn Þórarinsson fór annan sprett á 1:03,13 mínútum (bringusund), Daníel Hannes Pálsson fór þriðja sprett á 55,03 sekúndum (flugsund) og Kristófer Sigurðsson synti síðasta sprettinn á 50,37 sekúndum (skriðsund).
Eins og áður segir var þetta lokagrein íslenska liðsins á Heimsmeistararmótinu í 25 metra laug sem lýkur í dag í Qatar. Árangur okkar fólks var mjög góður ef tekið er mið af Íslandsmetum og bætingum einstaklinga, en ljóst er að við þurfum að taka okkur á ef við ætlum að halda í við þróunina á heimsvísu.
Þeir Jacky Pellerin landsliðsþjálfari og Klaus Jürgen-Ohk þjálfari hafa farið fyrir liðinu úti´i Qatar og staðið sig vel.