Vladimir Salnikov verður fulltrúi FINA á Smáþjóðaleikum á Íslandi
Vladimir Salnikov, fjórfaldur Ólympíumeistari og margfaldur heimsmeistari í 1500 metra skriðsundi, verður fulltrúi FINA, Alþjóðasundsambandsins, á Smáþjóðaleikunum sem verða á Íslandi í byrjun júní nk. Smáþjóðaleikar eru Ólympískt verkefni og því er það að alþjóðasambönd íþróttagreinanna sem keppt er í á leikunum hverju sinni eiga fulltrúa á staðnum til eftirlits og aðstoðar.
Það er mikill heiður að stjórn FINA skuli hafa tilnefnt Salnikov, en hann er eitt af stóru nöfnum sundsögunnar, synti 800 metra skriðsund sund fyrstur manna á skemmri tíma en átta mínútur og 1.500 metra skriðsund undir 15 mínútum. Hann sló Evrópumetið í 1.500 metra skriðsundi, á Ólympíuleikunum í Montreal 1976 og endaði fimmti í greininni. Hann var Evrópumeistari í 400, 800 og 1.500 metra skriðsundi á Evrópumeistaramótinu árið eftir, sigraði alla keppninauta sína í 800 og 1.500 metra skriðsundi næstu ár og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, Heimsmeistaramótum og Evrópumeistaramótum ásamt því að setja Ólympíu-, heims- og Evrópumet.
Salnikov synti undir 15 mínútum í 1.500 m skriðsundi, fyrstur manna, á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, 14.58,27 mínútum. Hann bætti heimsmetið sitt tveimur árum síðar er hann synti vegalengdina á 14.54,76. Það met stóð í níu ár, þannig að hann hélt metinu í greininni í 11 ár.
Salnikov gat ekki varið ólympíutitil sinn í á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984, þar sem Sovétríkin hunsuðu þá leika líkt og Bandaríkin höfðu gert gagnvart leikunum í Moskvu 1980 og þurfti sérstaka undanþágu til þess að vera í ólympíuliði Sovétmanna á Ólympíuleikunum í Seúl 1988 vegna aldurs. Hann afsannaði allar kenningar um að hann væri orðinn of gamall til þess að blanda sér í keppni þeirra bestu með því að vinna gullverðlaunin í 1.500 metra skriðsundi. Hann var 28 ára gamall og sagðist hann ekkert muna eftir síðustu 20-30 metrum sundsins svo þreyttur var hann. Þess má til gamans geta að á þeim leikum synti Ragnar Guðmundsson 1500 metra skriðsund fyrir Íslands hönd og setti þar Íslandsmet í greininni, 15:57,54, sem stóð allt til ársins 2011 þegar Anton Sveinn Mckee sló það á Smáþjóðaleikunum í Liechtenstein 2011 er hann synti þar á 15:49,61.
Vladimir Salnikov hefur fylgt íþróttinni sinni vel eftir í kjölfar keppnisferlsins. Hann var í Ólympíunefnd Sovétríkjanna frá 1984 til 1991 og landsliðsþjálfari Sovéska sundliðsins í tvö ár eftir hann hætti keppni. Hann vann hjá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í sundtengdum vörum og var varaformaður Sovéska sundsambandsins síðustu árin sem Sovétríkin lifðu. Á árunum 1991 til 2000 sat hann í íþróttamannanefnd FINA og var meðlimur sundtækninefndar LEN á tímabili.
Hann hefur um langt árabil setið í stjórn Rússneska sundsambandsins og verið formaður þar frá árinu 2009. Hann situr í stjórn LEN, Evrópska sundsambandsins og einnig í stjórn FINA, Alþjóðasundsambandsins.
Salnikov hefur hlotið ýmsa viðurkenningu heima og heiman. Hann var tam sæmdur Lenin orðunni 1985 og heiðursorðu rússneska lýðveldisins (sambærileg fálkaorðunni) 2010. Hann var tekinn inn í Alþjóðlega heiðurshöll sundíþrótta 1993.