Vladimir Salnikov verður eftirlitsmaður á sundkeppni Smáþjóðaleikanna í júní
Eitt af stórmennum sundsögunnar, Rússinn Vladimir Salnikov, verður eftirlitsmaður á sundkeppni Smáþjóðaleikanna sem fram fara hér á landi í byrjun júní. Salnikov, sem synti 800 m skriðsund sund fyrsta manna á skemmri tíma en átta mínútur og 1.500 m skriðsund undir 15 mínútum situr í tækninefnd Sundsambands Evrópu.
Salnikov, vakti fyrst alþjóðleg athygli þegar hann sló Evrópumetið í 1.500 m skriðsundi, á Ólympíuleikunum í Montreal 1976. Hann varð Evrópumeistari í 400, 800 og 1.500 m skriðsundi á Evrópumeistaramótinu árið eftir. Á næstu fimm árum var hann ósigrandi í 800 og 1.500 m skriðsundi og vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, heims- og Evrópumeistaramótum.
Salnikov rauf 15 mínútna múrinn í 1.500 m skriðsundi á Ólympíuleikunum í Moskvu 1980, 14.58,27 mínútum. Hann bætti eigið heimsmet tveimur árum síðar er hann synti vegalengdina á 14.54,76. Metið stóð í níu ár.
Salnikov fékk sérstaka undanþágu til þess að vera í ólympíuliði Sovétmanna 1988 og blés á allar hrakspár um að hann væri orðinn of gamall til þess að blanda sér í keppni þeirra bestu með því að vinna gullverðlaunin í 1.500 m skriðsundi. Síðar sagðist hann ekkert muna eftir síðustu 20-30 metrum sundsins svo úrvinda var hann. Hann var þá 28 ára gamall.