Beint á efnisyfirlit síðunnar

Eitt Íslandsmet í lokahluta ÍM50

12.04.2015

Íslandsmeistaramótinu í 50m laug í Laugardalslaug er nú lokið. Við fengum heilan helling af flottum úrslitum og mega allir vera glaðir með helgina. 

Eitt Íslandsmet féll í þessum sjötta og síðasta hluta en Bryndís Rún Hansen stóð við sitt og varð fyrsta íslenska konan undir 27 sekúndur í 50m flugsundi þegar hún mætti Íslandsmetið sitt frá því í morgun um 11/100 úr sekúndu og fór á 26,92. 

Pétursbikarinn hlaut Anton Sveinn McKee úr Ægi fyrir Íslandsmetið sitt í 200m bringusundi, 2:10,72. Það sund synti hann í Los Angeles í júlí í fyrra og stórbætti Íslandsmetið. Þessi tími skilaði honum 917 FINA stigum.
Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr Sunddeild Ármanns. Hann er veittur fyrir besta afrek karla skv. stigatöflu FINA frá lokum ÍM50 til og með næsta ÍM50 sem haldið er.

Sigurðarbikarinn hlaut Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH fyrir 50m bringusund sem hún synti á tímanum 31,29. Hrafnhildur fékk 836 FINA stig fyrir sundið. Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu Sigurð Jónsson Þingeying og er veittur fyrir besta afrek í bringusundi á ÍM50 hvert ár skv. stigatöflu FINA

Kolbrúnarbikarinn hlaut Eygló Ósk Gústafsdóttir fyrir 200m baksund á föstudaginn en þá synti hún á 2:09,36 og bætti eigið Íslands- og Norðurlandamet. Eygló fékk 882 FINA stig fyrir þetta sund. Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur, sundkonu úr Sunddeild Ármanns. Hann er veittur fyrir besta afrek kvenna skv. stigatöflu FINA frá lokum ÍM50 til og með næsta ÍM50 sem haldið er.

Ásgeirsbikarinn hlaut Eygló Ósk fyrir sama sund – 200m baksund með 882 FINA stig. Ásgeirsbikarinn eða Forsetabikarinn eins og hann er stundum kallaður er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar, fyrrum Forseta Íslands. Gefandi er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Bikarinn er veittur fyrir besta afrek á ÍM50 hvers árs skv. stigatöflu FINA.

Alls voru sett 6 Íslandsmet, 6 aldursflokkamet og eitt Norðurlandamet um helgina. Hægt er að sjá nánari útlistun á þeim á upplýsingasíðu ÍM50 – ásamt heildarúrslitum og tölfræði verðlauna.

Allar upplýsingar eftir mótið hér: http://www.sundsamband.is/sundithrottir/sundmot/im-50/ 

 

Myndir með frétt

Til baka