Beint á efnisyfirlit síðunnar

Landsmót UMFÍ 50+

11.06.2015

Landsmót UMFÍ 50+ verður að þessu sinni haldið á Blönduósi en þetta er í fimmta sinn sem mótið er haldið. Mótin hafa notið mikilla vinsælda og verið vel sótt. Öll keppnisdagskráin fer fram á Blönduósi. Mótið hefst föstudaginn 26.júní og því lýkur á sunnudaginn 28. júní.

Keppnisgreinar á mótinu eru fjölmargar og má nefna hestaíþróttir, frjálsar, boccia, bridds, dráttavélaakstur, golf, línudans, júdó, línudans, lombert, pútt, ringó, skák, skotfimi, starfshlaup, Dalahlaup, sund pönnubökubakstur og stígvélakast.
Mótið er skemmtileg viðbót í „landsmótsflóru“ UMFÍ en eins og nafnið bendir til þá er mótið fyrir þá sem eru orðnir 50 ára og eldri.Eins og önnur landsmót þá er það íþróttakeppnin sem skipar stærstan sess á mótinu en síðan eru það fjölmargir viðburðir sem skreyta dagskrána. Lögð er áhersla á að þátttakendur hafi gaman og skemmti sér á mótinu. Boðið verður upp á fjölbreytta afþreyingardagskrá alla mótsdagana.

Auk hefðbundinna keppnisgreina verður boðið upp á morgunleikfimi á laugardagsmorgninum, sögugöngu um Blönduósbæ og heilsufarsmælingar. Síðdegis á laugardeginum verður haldnar söngbúðir í samkomutjaldinu og eru allir hvattir til að mæta og taka þátt. Að auki verður boðið upp á hressilegt Zumba. Stefnt er að hafa dansiball í samkomutjaldinu á laugardagskvöldinu fyrir mótsgesti.

Mótssetning verður á föstudagskvöldið og hefst kl.20:00. Keppni í línudansi verður í kjölfarið á mótssetningunni. Mótsslit verða í samkomutjaldinu laust eftir hádegi á sunnudag.

Til baka