Íslandsmótinu í Víðavatnssundi 2015 lokið
Íslandsmótið í Víðavatnssundi fór fram í Nauthólfsvík í dag en mótið er samstarfsverkefni Sundsambands Íslands, Securitas og Hins Íslenska Kaldavatnsfélags. Rúmlega 50 keppendur tóku þátt í ár en þetta er í sjöunda skiptið sem mótið er haldið.
Keppt var í þremur vegalengdum, einum, þremur og fimm kílómetrum. Þá var keppt í karla og kvennaflokki og aldursskipt innan þeirra. Þessum flokkum er svo skipt upp í þá sem synda í heilgalla og ekki.
Íslandsmótið er hluti af Íslandsgarpinum ásamt jökulmílunni sem farin er á hjóli og 7 tinda hlaupinu í kringum Mosfellsdal.
Veðrið var ágætt, hlýtt þó vindurinn hafi náð að kæla örlítið. Sjórinn var 13 gráður.
Íslandsmeistari karla og kvenna í 3 km án galla fengu einnig titilinn Sundkóngur og Sunddrottning ársins og hlutu þau þannig bikara sem gefnir voru af Helga Sigurðssyni en hann hlaut titilinn sjálfur árið 1962. Þau Þorgeir Sigurðsson og Birna Hrönn Sigurjónsdóttir tóku við bikurunum af Helga sjálfum.
Fjöldi fólks lagði leið sína í Nauthólsvíkina til að fylgjast með, setjast í pottinn og jafnvel til að prófa að stinga sér í sjóinn. Þó ekki hafið fjölgað mjög í þátttöku milli ára er stefna mótshaldara ávallt að gera mótið stærra og betra.
Heildarúrslit má finna hér:
http://thriko.is/live/sjosund.php
Högni B. Ómarsson var á myndavélinni en fleiri myndir má sjá hér á Facebooksíðu SSÍ.