Eygló Ósk og Anton Sveinn sundfólk ársins
Í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 9. desember 2015 og fyrri samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Eygló Ósk Gústafsdóttir, Sundfélaginu Ægi, er sundkona ársins 2015 og Anton Sveinn Mckee, Sundfélaginu Ægi, er sundmaður ársins 2015.
Eftirfarandi viðmið gilda fyrir valið:
- FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
- Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
- Íslandsmet og Norðurlandamet í báðum brautarlengdum voru metin
- Staðsetning á heimslista í 13. desember 2015 í báðum brautarlengdum var vegin saman
- Þátttaka í landsliðsverkefnum var metinn
- Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
- Ólympíulágmörk sundfólksins
- Ástundun sundfólksins var metin
- Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin
Langa brautin gildir 67% og stutta brautin 33% í mati á sundfólkinu
Sundkona ársins 2015 er Eygló Ósk Gústafsdóttir
Eygló Ósk Gústafsdóttir er 20 ára í Sundfélaginu Ægi. Hún hefur stundað nám í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti og nýtur A-styrks Afrekssjóðs ÍSÍ.
Eygló Ósk hefur sýnt framfarir það sem af er ári, hún hefur 3x sett Íslands- og 3x Norðurlandamet á síðustu 6 mánuðum.
Hún komst í úrslit á HM50 í Kazan 2015, en árangur Íslendinga á því móti var einn sá besti í sögunni. Eygló Ósk setti Íslandsmet í sínum greinum í báðum brautarlengdum, Norðurlandamet í löngu brautinni og vann til tveggja bronsverðlauna á EM25 nú í desember.
Eygló Ósk hefur þegar tryggt sér A- lágmark á ÓL 2016 í 100 og 200m baksundi.
Eygló Ósk æfir hér á Íslandi undir stjórn Jacky Pellerin og er reglusöm og dugleg þegar kemur að æfingum, fylgir leiðsögn og mætir vel. Hún er kappsöm og lætur sjaldan utanaðkomandi truflun hafa áhrif á sig. Hún hefur þroskast mjög mikið sem afreksíþróttakona á síðustu fjórum eða frá því hún bjó sig undir þátttöku á ÓL 2012 og gætir vel að sér í samskiptum við aðra, hvort sem er samherja eða móherja.
Valið milli þeirra Eyglóar Óskar og Hrafnhildar Lúthersdóttur úr SH var erfitt að þessu sinni því báðar sundkonurnar stóðu sig afburðavel á árinu 2015. Það sem stendur uppúr og réð úrslitum eru Norðurlandamet Eyglóar á fyrri hluta ársins þegar hún fyrst sundfólksins náði Ólympíulágmarkinu og svo verðlaunin sem hún vann á EM25 í desember. Að öðru leyti stóðu þessar sundkonur nokkuð jafnfætis í valinu að þessu sinni. Þær tóku til að mynda báðar þátt í HM50 í Kazan, bættu þar árangur sinn og íslenskra sundkvenna, komust í úrslitariðla og sýndu að þær eru komnar í fremstu röð sundkvenna í heiminum.
Sundmaður ársins 2015 er Anton Sveinn Mckee
Anton Sveinn Mckee er 22 ára sundmaður í Sundfélaginu Ægi. Hann stundar nú nám í The University of Alabama í Bandaríkjunum og er á styrk þar vegna sundiðkunnar. Hann nýtur A- styrks Afrekssjóðs ÍSÍ. Hann lagði áherslu á langsund, svo sem 800 og 1500 metra skriðsund og svo 400 metra fjórsund áður en hann hóf nám í Bandaríkjunum. Þar breytti hann örlítið til og hóf að búa sig undir keppni í bringusundi og tók þar við keflinu af Jakobi Jóhanni Sveinssyni.
Anton Sveinn stóð sig vel á HM50 og komst í undanúrslit, setti 2 Íslandsmet í 100m og 200m bringusundi og komst 1 sinni í undanúrslit og endaði í 13.sæti í 200m. bringusundi.
Hann er sem stendur númer 24 á Heimslista í 200m bringusundi og númer 35 í 100m bringusundi.
Anton Sveinn er búinn að tryggja sér A- lágmark á ÓL 2016 í 100m og 200m bringusundi.
Anton Sveinn tók þátt í Smáþjóðaleikum á Íslandi 2015 og stóð sig afarvel. Hann er duglegur og metnaðarfullur, hvort sem er á æfingum eða í keppni og er mjög annt um að ná árangri í íþrótt sinni.
Boðsundsveit Íslands í 4x100m fjórsundi
Boðsundssveitin okkar stendur vel að vígi fyrir komandi ár og bindum við miklar vonir við sundkonurnar sem þar eiga möguleika á sæti.
Sem stendur er kvennasveitin í 12. sæti á Evrópulista og í 18. sæti á Heimslista.
Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildi Lúthersdóttir eiga öruggt sæti í sveitinni en að auki koma þrjár sundkonur til greina í sveitina. Þær eru Bryndís Rún Hansen Sundfélaginu Óðni, en hún er við æfingar í Tyrklandi og í góðu samstarfi við Jacky Pellerin landsliðsþjálfara, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir úr Ægi og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir úr SH. Tvær síðarnefndu æfa sem stendur í Bandaríkjunum. Þær koma heim til Íslands til að taka þátt í Íslandsmeistarmótinu í 50m laug í apríl 2016. Síðasta tækifæri sveitarinnar til að ná sæti á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 er á Evrópumeistaramótinu í London sem verður í maí næstkomandi. Við vonumst auðvitað eftir því að þær nái sætinu þar.