Beint á efnisyfirlit síðunnar

Uppgjör ársins 2015 og spennandi tímar framundan 2016

23.12.2015

Ótrúlegur góður árangur náðist hjá íslensku sundfólki á árinu 2015 og nægir þar að minnast á Norðurlandamet og glæsilegan árangur á Smáþjóðaleikunum, Heimsmeistaramóti, Evrópumóti og Norðurlandamóti, þar sem hvert Íslandsmetið á fætur öðru var sett.

Að öðrum ólöstuðum er rétt að minnast sérstaklega á þau Eyglóu Ósk Gústafsdóttur, sem fyrst sundfólksins náði Ólympíulágmarki í mars, setti Norðurlandamet (í löngu brautinni) í 200 metra baksundi og þríbætti það svo á árinu, var glæsilegur fulltrúi okkar á Smáþjóðaleikum, stóð sig mjög vel á HM50 í Kazan og komst þar í úrslit í sínum greinum og lauk svo árinu á glæsilegan hátt með því að ná tveimur bronsverðlaunum í 100 og 200 metra baksundi í Ísrael nú í byrjun desember. Eygló Ósk hefur búið og æft hér heima á Íslandi undir stjórn Jacky Pellerin landsliðsþjálfara.

Hrafnhildi Lúthersdóttur sem kom sá og sigraði á Smáþjóðaleikum í júní, komst fyrst kvenna í úrslit á HM50 í Kazan og kom svo og rúllaði upp Íslandsmeistaramótinu í stuttu brautinni í nóvember.  Hrafnhildur var að útskrifast úr skólanum sínum í USA og hefur búið og æft þar undanfarin ár.  Báðar settu þessar sundkonur margsinnis Íslandsmet í sínum greinum á árinu auk þess sem þær voru báðar valdar til að keppa með Evrópuúrvalinu á móti USA í desember.  Þær eru fyrstu íslendingarnir sem komast í þennan hóp en miðað við gengi okkar á undanförnum árum og þær væntingar sem við höfum verða þær ekki þeir síðustu.

Anton Svein Mckee hefur einnig tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum ásamt þeim Eygló og Hrafnhildi, hann hefur verið meginhluta ársins við æfingar og nám í USA en kom hér heim og keppti á Smáþjóðaleikum og var svo hluti af hópnum á HM50 í Kazan og stóð sig vel þar. 

Anton Sveinn og Eygló Ósk voru útnefnd sundfólk ársins og eftirfarandi viðmið giltu  fyrir valið: 

  1. FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
  2. Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
  3. Íslandsmet og Norðurlandamet í báðum brautarlengdum voru metin
  4. Staðsetning á heimslista í 13. desember 2015 í báðum brautarlengdum var vegin saman
  5. Þátttaka í landsliðsverkefnum var metinn
  6. Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
  7. Ólympíulágmörk sundfólksins
  8. Ástundun sundfólksins var metin
  9. Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin

Langa brautin gildir 67% og stutta brautin 33% í mati á sundfólkinu

Þau fá hér viðurkenningu sem Ingibjörg Helga Arnardóttir afhendir þeim.

Þá er vert að minnast á þær Bryndísi Rún Hansen sem æfir nú í Tyrklandi og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur sem hefur verið við æfingar með sínum skóla í USA en þær tvær kepptu einnig á HM50 í Kazan og stóðu sig vel.  Og ekki má gleyma þeim Ingu Elínu Cryer sem æfir hér heima og keppti á EM25 og Ingibjörgu Kristínu Jónsdóttur sem æfir með sínum skóla í USA, en þessar fjórar sundkonur eru í Ólympíuhóp Sundsambands Íslands ásamt þeim Aroni Stefánssyni, Kolbeini Hrafnkelssyni og Kristni Þórarinssyni, en þessir piltar æfa báðir hér heima.  Þeir voru allir hluti af Smáþjóðaleikaliðinu, Aron keppti á EM25 en Kolbeinn og Kristinn tóku þátt í Norðurlandamótinu og stóðu sig vel, ma fékk Kristinn bronsverðlaun á því móti.

Ólympíuhópurinn verður miðjan í afreksstarfinu fyrri hluta ársins 2016 og fyrir honum fer Jacky Pellerin, landsliðsþjálfari, sem hefur gert frábæra hluti með íslensku sundfólki á undanförnum 8 árum.  Stefnan er ma sett á að koma kvennaboðsundssveit í 4x100 metra fjórsundi á ÓL í Ríó, en til þess að það geti orðið að veruleika þarf sveitin að synda á töluvert betri tíma en gildandi Íslandsmet í greininni á Evrópumeistaramótinu sem verður í London í maí næstkomandi.  Þær Hrafnhildur og Eygló Ósk eiga báðar fast sæti í sveitinni, en Bryndís Rún, Inga Elín, Ingibjörg Kristín og Jóhanna Gerða berjast um að tryggja sér sæti.  Þá þurfa piltarnir Aron, Kolbeinn og Kristinn að spýta í lófana ef þeir ætla að ná sér í keppnisrétt á Ólympíuleikum, en tækifæri þeirra til þess er á Íslandsmeistaramótinu í apríl og svo á Evrópumeistaramótinu í maí.

En það var fleira að gerast á árinu 2015.  Þau Sigríður Þuríður Geirsdóttir, Árni Árnason og Ásgeir Elíasson fá hér sérstaka viðurkenningu fyrir að hafa lokið Ermarsundi síðastliðið sumar en það er sérstakt afrek.

Einnig hefur dregist úr hömlu að veita þeim Birna Hrönn Sigurjónsdóttir og Jóni Kristini Þórssyni Drangeyjarbikarinn fyrir Drangeyjarsund á árunum 2012 og 2014.  Lárus Blöndal forseti ÍSÍ afhendir þeim bikarinn og svo viðurkenningarskjal, en bikarinn er varðveittur hjá ÍSÍ.

Fjölmörg spennandi verkefni bíða sundfólks á komandi ári.  Má þar nefna:

  • Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug í apríl, þar sem sundfólk keppir um ÓL lágmörk
  • Evrópumeistaramótið í 50 metra laug í maí, einnig þar er keppt um ÓL lágmörk
  • Ólympíuleikarnir í Ríó í Brasilíu í ágúst
  • Íslands- og Evrópumót garpa (eldri sundmanna) í lok apríl
  • Íslandsmót í Víðavatnssundi í samvinnu við Sjósunds- og sjóbaðsfélag Reykjavíkur og Coldwater sem verður um miðjan júlí
  • Dýfingar og samhæfða sundfimi – sýningar og námskeið í apríl
  • Námskeið í sundknattleik í mars, en vonast er til að Ísland verði þátttakandi í alþjóðamótum í sundknattleik innan fárra ára
  • Íslandsmót í sundknattleik sem verður helgina 30.apríl til 1.maí.

Þá ber sérstaklega að minnast á 200 metra sund íslensku þjóðarinnar, en Sundsambandið efnir til þriggja mánaða átaks í samvinnu við ÍSÍ, þar sem þjóðin er hvött til að synda 200 metra eins oft og kostur er, greiða örlítið gjald og fá stimpil að loknu sundi og möguleika á brons-,  silfur- og gullverðlaunum. Ágóðinn af sundinu fer svo í gott málefni. Þetta átak verður kynnt rækilega í byrjun árs 2016 og við hlökkum til að sjá sem flesta taka þátt.

 

Myndir með frétt

Til baka