Beint á efnisyfirlit síðunnar

Dagur 3 á ÍM50 og 17 ára gamalt piltamet féll !

25.04.2016

Lokadagur ÍM50 hófst í morgun, þá jafnaði blandaða boðsundssveit  (2 konur og tveir karlar) SH íslandsmet sitt í 4x50m skriðsundi.  Syntu þau á tímanum 1.40.32 sem er nákvæmleg sami tími og þau syntu á í fyrra. Sveitina skipuðu : Aron Örn Stefánsson, Predrag Milos, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Í lokagrein mótsins setti piltasveit sundfélagsins Ægis piltamet í 4x100m skriðsundi, þeir syntu á tímanum 3.47.87. Gamla metið átti sveit Ægis og var það sett fyrir 17 árum í Hveragerði. Tíminn var þá 3.49.25. Sveitina í dag skipuðu þeir : Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson, Bjartur Þórhallsson, Hilmir Örn Ólafsson og Kristján Gylfi Þórisson

Á ÍM50 eru veittar sérstakar viðurkenningar fyrir bestu afrek mótsins og einnig afrek  á milli íslandsmeistaramóta.


 Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs. Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug. 

Pétursbikarinn hlaut að þessu sinni Anton Sveinn Mckee fyrir 200m bringusund sem hann synti í Kazan á HM50 í ágúst 2015.


Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda og vinir Kolbrúnar. 
Kolbrúnarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug. 


Hrafnhildur Lúthersdóttir vann Kolbrúnarbikarinn að þessu sinni fyrir 200m bringusund sem hún synti á HM50 í Kazan í ágúst 2015.


Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu Sigurðar Jónssonar Þingeyings. Gefandi hans er fjölskylda Sigurðar. 
Sigurðarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í bringusundi, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands. 
Hrafnhildur Lúthersdóttir vann Sigurðarbikarinn að þessu sinni fyrir 100m bringusund á ÍM50 2016.

Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Gefandi er forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. 
Ásgeirsbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands. 
Það var Íþróttamaður ársins 2015 Eygló Ósk Gústafsdóttir sem hlaut Ásgeirsbikarinn að þessu sinni fyrir 200m baksund á ÍM50 2016.


Árangur mótsins var ágætur og hafa nú fjórir sundmenn tryggt sér keppnisrétt á EM50 sem hefst 16.maí n.k Það eru þau Anton Sveinn Mckee,Bryndís Rún Hansen, Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Þrír hafa tryggt sér keppnisrétt á EMU, Evrópumeistaramóti unglinga sem verður haldið í Ungverjalandi í júlí.  það eru þær Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Snæfríður Jórunnardóttir og Sunneva Dögg Friðriksdóttir. 
Einnig hafa tveir keppendur náð lágmörkum á Norðurlandamót Æskunnar í Finnlandi í júlí.  það eru þau Brynjólfur Óli Karlsson,Stefanía Sigurþórsdóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir.

 

Til baka