Gleymd ólympísk sundgrein - Plunge for distance
15 dagar í sundið á Ólympíuleikum 2016!
William Dickey er sundgarpur sem fæstir sem þetta lesa kannast við. Hann hefur þó unnið til gullverðlauna í Ólympískum dýfingum og er sá fyrsti, og reyndar sá eini, til þess að hreppa þau.
Greinin sem hann keppti í heitir á engilsaxnesku: "Plunge for distance" sem mætti útleggja á íslensku sem "Rennsli án atrennu", "Lengdardýfingar" eða "Feitur magi, drukknandi maður" (útskýring hér að neðan).
Staðreyndin er sú að þessi grein var einungis á dagskrá á einum leikum, árið 1904 í St. Louis í Bandaríkjunum. Greinin snýst um það að láta sig renna sem allra lengst án þess að hreyfa nokkurn part líkamans, eftir að hafa stungið sér af bakkanum, án atrennu.
Keppandi reynir þá að halda niðrí sér andanum sem lengst og láta sig renna sem allra lengst á meðan. Almennt var vegalengdin miðuð við fremsta part líkamans, fjærst byrjunarreit og mælt eftir stöðu sundmanns þegar höfuð hans kom allt upp úr vatninu.
Ótrúlegt en satt þá eru til fáeinar útfærslur af lengdardýfingum. Ýmist var boðið upp á að stinga sér fram eins og tíðkast í dag, nú eða með fætur á undan. Að öllum líkindum hafa menn orðið hræddir um höfuðmeiðsli því hið síðarnefnda var mun óvinsælla.
Þá varð til 60 sekúndna regla. Hún er fyrst talin hafa verið notuð á Enska meistaramótinu í "Plunging" árið 1893 en þannig voru tímatakmörk sett á keppendur. Eftir 60 sekúndur af rennsli voru þeir stoppaðir af og árangur mældur. Svo var auðvitað týpan fyrir stuttu brautina; hver var fljótastur yfir!
Greinin átti undir högg að sækja eftir leikana 1904 þar sem hún þótti ekki mikil íþrótt. Keppendur voru almennt betri eftir því sem þeir voru þyngri (en þó straumlínulagaðir að einhverju leyti) og var hún því tekin af dagskrá.
Hinn íturvaxni og að því er virðist, rennilegi Herra Dickey er enn sem komið er Ólympíumeistari greinarinnar. Sigurrennslið var mælt 19,05 metrar og má minna á það að 60 sekúndna reglan var við lýði.
Þessir 19,05 metrar eiga þó ekki roð í heimsmetið í greininni, 26,4 metrar - sett af breska sundmanninum Francis W. Parrington á því herrans ári 1933. Francis vann víst Enska meistaramótið 11 ár í röð, 1926 - 1939. Barnabarn hans, David Parrington, hefur m.a. keppt fyrir Zimbabwe á Ólympíuleikunum í Moskvuborg árið 1980 og vinnur, að því er höfundur best veit, sem yfirþjálfari dýfingaliðsins í Tennessee háskóla í Bandaríkjunum.
Tenglinum hér að neðan má sjá myndskeið frá ungum dýfingamanni sem reynir að bæta Ólympíumet William Dickey. Hann virðist þó ekki halda uppi heiðri 60 sekúndna reglunnar góðu og er nærri því 2 mínútur í kafi.
https://www.youtube.com/watch?v=vrmd5JgJmHQ
Myndirnar eru fengnar af Wikipedia síðunni "Plunging for distance" og sýna þar ýmsa hluta greinarinnar. Teikningarnar eru frá árinu 1893. Hópmyndin er af bandaríska sundliðinu á ÓL 1904 og glöggir sjá þar Ólympíumeistarann og -methafann, William Dickey í efri röð, þriðja frá hægri (þessi svarthvíti)