Tvö HM lágmörk og stúlknamet á fyrsta degi ÍM25
Í kvöld fór fram fyrsti úrslitahluti ÍM25 þetta árið hér í Ásvallalaug í Hafnarfirði.
Mörg góð sund voru synt en það sem bar hvað hæst var stúlknamet A - sveitar ÍRB sem fór 4x200m skriðsund á 8:36,79 og hrepptu 2. sætið í greininni á eftir Ægiringum. Gamla metið áttu stúlkurnar úr ÍRB fyrir og var það 8:37,88 frá ÍM25 í fyrra. Sveitina skipuðu þær Eydís Ósk Kolbeinsdóttir, Sylwia Sienkiewicz, Sunneva Dögg Robertson og Stefanía Sigurþórsdóttir.
Þá náðu þau Kristinn Þórarinsson úr ÍBR og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir úr Ægi, lágmörkum á HM25 sem haldið er í Windsor í Kanada í desember. Kristinn náði lágmarkinu í 200m fjórsundi þegar hann sigraði greinina á 1:58,11. Fyrir var hann kominn með lágmark í 200m baksundi. Jóhanna Gerða sigraði 200m fjórsund á tímanum 2:16,00 sem tryggði henni þátttökurétt á mótið.
Mótið hefst aftur á undanrásum kl. 9:30 í fyrramálið og svo eru úrslitin kl. 16:30.