Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍM25 dagur 2 - 4 Íslandsmet og 1 meyjamet

19.11.2016

Nú rétt í þessu lauk öðrum degi Íslandsmeistaramótsins í 25m laug í Ásvallalaug í Hafnarfirði og var árangurinn góður.

Í morgun voru tvö Íslandsmet sett, bæði í 4x100m fjórsundi í blönduðum flokki. Keppt var í tveimur riðlum og þar sem það hefur aldrei verið skráð Íslandsmet í greininni áður þá setti sigurvegari fyrri riðilsins, B-Sveit Ægis, fyrsta metið í greininni. Þau syntu á tímanum 4:21,24 en sveitina skipuðu þau Kristján Gylfi Þórisson, Hilmir Örn Ólafsson, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir og Bjarkey Jónasdóttir. Í seinni riðlinum sigraði A-sveit ÍRB, og þar með greinina líka en þau syntu á tímanum 3:59,69 og bættu þar með hið 5 mínútna gamla met. Sveitina skipuðu þau Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Árni Már Árnason, Sunneva Dögg Robertson og Eydís Ósk Kolbeinsdóttir.

Í 4x100m fjórsundi kvenna sló B-sveit ÍRB meyjametið þegar þær fóru á 4:59,52 en gamla metið var 5:01,09 og það var meyjasveit ÍRB sem setti það á ÍM25 fyrir tveimur árum. Sveit ÍRB skipuðu þær Hafdís Eva Pálsdóttir, Sólveig María Baldursdóttir, Eva Margrét Falsdóttir og Ásta Kamilla Sigurðardóttir.

Í riðlinum þar á eftir gerði A-sveit Ægis sér svo lítið fyrir og bætti árs gamalt Íslandsmet SH-inga í greininni. Þær syntu á 4:14, 82 en gamla metið var 4:17,43. Sveit Ægis skipuðu þær Eygló Ósk Gústafsdóttir, Inga Elín Cryer, Jóhanna Gerða Gústafsdóttir og Bjarkey Jónasdóttir.

Í 4x100m skriðsundi karla, sem var jafnframt síðasta grein dagsins, sló sveit ÍRB þeirra eigið Íslandsmet, rúmlega 7 vikna gamalt. Þeir sigruðu greinina á 3:22,49 en höfðu synt á 3:23,49 í byrjun október. Þeir Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Árni Már Árnason, Kristófer Sigurðsson og Þröstur Bjarnason skipuðu sveitina. 

Öll úrslit mótsins má sjá á úrslitasíðunni: www.swimrankings.net/services/CalendarFile/16747/live/index.html

Heimasíða mótsins: www.sundsamband.is/sundithrottir/sundmot/im-25/

Myndir með frétt

Til baka