Beint á efnisyfirlit síðunnar

HM 2016 í Kanada að hefjast

06.12.2016

Í dag hefst HM25 í Windsor í Kananda.  Þetta er í 13. skipti sem FINA heldur heimsmeistaramót í stuttu brautinni, en nú um stundir eru þau haldin annað hvert ár (sléttar tölur) fyrstu eða aðra helgina í desember.  Hitt árið heldur LEN EM25 á sama árstíma.  Mótið er hefðbundið, riðlakeppni að morgni og svo milliriðlar og úrslitasund seinnipartinn.  

Þau sem keppa fyrir Íslands hönd á morgun eru þau Hrafnhildur Lúthersdóttir sem stingur sér fyrst til sunds upp úr kl. 11:00 á staðartíma (um kl. 16:00 á íslenskum tíma) og syndir 50 metra bringusund.  Hún syndir í 7 og síðasta riðli greinarinnar á 2. braut.  Strax í kjölfarið er komið að Davíð Hildiberg Aðalsteinssyni sem keppir í 100 metra baksundi ca 11:15 og syndir í 5. riðli af 8 á braut 0.  Kristinn Þórarinsson syndir einnig 100 metra baksund í sama riðli á braut 4.  Viktor Vilbergsson stingur sér svo klukkutíma síðar í 100 metra bringusund, syndir í 5 riðli af 10 á braut 5.  Eygló Ósk Gústafsdóttir hefur sína keppni upp úr hálf eitt, þegar hún syndir 100 metra baksund í 7. riðli af 8 á braut 6.  Kristinn Þórarinsson syndir svo 200 metra fjórsund um kl. 13:00 á staðartíma, er þar á braut 9 í 6 riðli af 7.  

Við getum búist við því að Hrafnhildur og Eygló Ósk komist í milliriðla í sínum greinum.  Piltarnir eru lengra frá því en eru allir í góðu formi þannig að allt getur gerst.

Aron Örn Stefánsson, Bryndís Rún Hansen og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir eru í fríi frá keppni á morgun en fylgja liðinu í upphitun og keppni til hvatningar.

Hér er dagskrá mótsins og hér er úrslitasíðan sem verður virk um leið og mótið hefst á eftir.

Myndir með frétt

Til baka