Tvö Íslandsmet í fyrstu grein á öðrum degi á HM25 og eitt í lokin
Íslenska kvennasveitin okkar synti 4x50m fjórsund boðsund og setti í leiðinni nýtt landsmet í greininni. Þær Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi, Hrafnhildur Lúthersdóttir SH, Bryndís Rún Hansen Óðni og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir Ægi syntu á tímanum 1:49,41 min og enduðu í 14. sæti af 20. Gamla metið var 1:57,06 min og var 12 ára gamalt. Eygló Ósk setti einnig Íslandsmet í 50 metra baksundi þegar hún synti fyrsta sprett á tímanum 0:27,40 sekúndum og bætti þar með gamla metið sitt og Ingibjargar Kristínar Jónsdóttur um 5/100 úr sekúndu. Ingibjörg setti metið fyrst fyrir 5 árum síðan en Eygló jafnaði það svo á Íslandsmeistaramótinu í 25m laug fyrir 2 árum síðan. Þær voru ánægðar með sig stúlkurnar að sundi loknu.
Bryndís Rún Hansen úr Óðni synti því næst 100 metra skriðsund. Hún synti á tímanum 0:54,67, bætti eigin tíma töluvert og hjó þar með nærri Íslandsmetinu í greininni sem Ragnheiður Ragnarsdóttir úr KR á og er 0:54,44, en það var sett á ÍM25 2010. Bryndís lenti í 29. sæti í greininni af 132, en til þess að komast í milliriðla þurfti Bryndís að synda undir 0:53,78.
Boðsundssveitin í blönduðum flokki í 4x50m skriðsundi var skipuð þeim Aroni Erni Stefánssyni, Davíð Hildiberg Aðalsteinssyni, Eygló Ósk Gústafsdóttur og Jóhönnu Gerðu Gústafsdóttur. Þau syntu í öðrum riðli af 4. Ekkert landsmet var skráð í greininni fyrir sundið þannig að tíminn þeirra 1:36,70, er sjálfkrafa met. Hins vegar er Íslandsmetið 1:38,63 sem sveit Reykjavíkur á sett á ÍM25 2014. Þá voru í sveitinni þau Alexander Jóhannesson, Eygló Ósk Gústafsdóttir, Kristinn Þórarinsson og Inga Elín Cryer.
Munurinn á Íslandsmeti og landsmeti er einfaldast að útskýra þannig að landsmet eru sett þegar saman kemur sundfólk í landsliðsverkefnum en Íslandsmet eru sett af sundfólki úr sama sundfélagi. Sveitin varð í 7. sæti í sínum riðli og í 16. sæti í greininni af 31. Átta efstu þjóðir í boðsundum komast í úrslitariðla.
Á morgun er dagskrá Íslendinganna eftirfarandi:
Kristinn Þórarinsson úr Fjölni og Viktor Máni Vilbergsson SH synda 100 metra fjórsund í upphafi dags. Fljótlega kemur svo röðin að Bryndísi Rún Hansen úr Óðni að synda 50 metra flugsund og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson ÍRB og Kristinn Þórarinsson Fjölni synda 50 metra baksund. Þá synda þær Hrafnhildur Lúthersdóttir SH og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir Ægi 100 metra fjórsund og Aron Örn Stefánsson SH fer 50 metra skriðsund. Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi syndir 200 metra baksund og Viktor Máni Vilbergsson SH 200 metra bringusund. Mótshlutanum lýkur svo með boðsundi þar sem synt er 4x50 metra fjórsund í blönduðum flokki.
Fyrstu tveir dagarnir hér á HM25 í Windsor í Kanada hafa verið góðir, sundfólkið að bæta sig, einu sinni sundkona í milliriðlum og nokkur Íslandsmet komin.