Bryndís og boðssundssveitin settu Íslandsmet í morgunhlutanum
Bryndís Rún Hansen setti nýtt Íslandsmet í 50 metra flugsundi á HM25 í Windsor Kanada. Hún synti greinina á 0:26,22 sem 48/100 bæting og komst þar með í milliriðla. Blandaða sveitin okkar setti einnig landsmet þegar hún synti 1:43,84. Hrafnhildur Lúthersdóttir komst svo í milliriðla í 100 metra fjórsundi.
Viktor Máni Vilbergsson SH hóf keppni fyrir Íslands hönd þriðja keppnisdaginn og synti 100 metra fjórsund á tímanum 0:56,79 sem er bæting á hans besta tíma. Hann varð 3. í sínum riðli. Kristinn Þórarinsson Fjölni synti í næsta riðli á eftir, varð einnig þriðji í sínum riðli á tímanum 0:55,12 sem er einnig bæting. Kristinn lenti í 33 sæti og Viktor í 44 sæti í greininni af 87 keppendum. Íslandsmetið í greininni er 0:52,53 en það á Örn Arnarson SH frá því á EM25 í Helsinki 2006. Til þess að komast í milliriðla þurfti að synda á tímanum 0:53,57 en það gerði Fabio Scozzoli frá Ítalíu.
Bryndísi Rún Hansen úr Óðni synti 50 metra flugsund á tímanum 0:26,22 sem er nýtt Íslandsmet og lenti í 4. sæti í sínum riðli og í 15. sæti af 77 keppendum og syndir þar af leiðandi í milliriðlum í kvöld. Íslandsmetið í greininni átti Bryndís Rún sjálf en það var 0:26,70.
Davíð Hildiberg Aðalsteinsson ÍRB synti 50 metra baksund á tímanum 0:25,24 og lenti í 4. sæti í sínum riðli. Þessi tími Davíðs er góð bæting. Kristinn Þórarinsson Fjölni synti sömu grein á tímanum 0:25,27, sem er ríflega hálfri sekúndu frá hans besta og lenti í 10. sæti í riðlinum. Þeir lentu í 40. og 41. sæi í greininni, en 86 reyndu með sér í geininni. Íslandsmetið á Örn Arnarson frá EM25 í Debrecen árið 2009 en það er 0:24,05. Til þess að komast í milliriðla þurfti að synda undir 0:23,98.
Hrafnhildur Lúthersdóttir SH og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir Ægi syntu 100 metra fjórsund. Hrafnhildur synti í 5.riðli og varð fjórða í riðlinum á tímanum 1:00,79 sem er 16/100 frá Íslandsmetinu hennar 1:00,63 sett á ÍM25 2015. Hún varð í tólfta sæti í greininni og syndir því í milliriðlum í kvöld.
Jóhanna Gerða synti í 7. riðli og varð áttunda í riðlinum á tímanum 1:03,51 og í 27. sæti í greininni af 63 sundkonum. Síðasti tími inn í milliriðla var 1:01,21. Jóhanna var skráð inn til keppni á tímanum 1:03,48 þannig að hún var alveg við sinn besta tíma.
Aron Örn Stefánsson SH synti 50 metra skriðsund á tímanum 0:22,87 og varð fjórði í riðlinum sínum. Aron átti best fyrir þessa keppni 0:23,05 og er því að bæta tímann sínn. Hann varð í 55. sæti í greininni af 157 skráðum keppendum. Íslandsmetið á Árni Már Árnason en það er 0:22,29 sett á ÍM25 árið 2009. Til þess að komast í milliriðla þurfti að synda undir 0:21,71.
Eygló Ósk Gústafsdóttir Ægi fór 200 metra baksund á tímanum 2:07,36 sem er töluvert frá Íslandsmeti hennar frá því á EM25 í Ísrael í fyrra, en það er 2:03,53. Hún endaði sjötta í riðlinum sínum og 17 í greininni af 42 sundkonum og náði ekki inn í úrslitariðilinn. Til þess að ná inn í hann þurfti Eygló að synda undir tímanum 2:05,12.
Viktor Máni Vilbergsson úr SH synti 200 metra bringusund og náði tímanum 2:14,52 og fimmti í sínum riðli og í 32. sæti í greininni af 63 sundmönnum. Viktor var skráður inn á tímanum 2:15,09 þannig að hann er að bæta tímann sinn.. Íslandsmetið í greininni á Jakob Jóhann Sveinsson Ægi, sett á ÍM25 2009, 2:07,75. Til þess að komast í úrslitariðil hefði Viktor þurft að synda á betri tíma en 2:04,93.
Mótshlutanum lauk svo með boðsundi þar sem synt er 4x50 metra fjórsund í blönduðum flokki. Íslenska sveitin setti nýtt met á tímanum 1:43,84 og urðu fimmta í riðlinum og í 16.sæti af 31. Sveitina okkar skipuðu þau Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Brydís Rún Hansen og Aron Örn Stefánsson. Fyrra landsmetið í greininni var sett í Doha á HM25 árið 2014. Það var 1:46,56 og í sveitinni þá voru þau Eygló Ósk, Hrafnhildur, Daníel Hannes Pálsson og Davíð Hildiberg. Til þess að komast í úrslitariðil hefði sveitin þurft að synda undir 1:40,49.
Góður morgunhluti að mestu fyrir íslenska sundfólkið hér í Windsor.
Það sem stendur uppúr eftir þá mótshluta sem er lokið á mótinu er að íslenska sundfólkið er að sækja í sig veðrið, bæta tímana sína í flestum tilfellum og við erum að ná inn í undanúrslitariðla og úrslitariðla í nokkuð í samræmi við áætlanir og það sem við sjáum að sundfólkið okkar getur. En við þurfum að halda áfram og bæta okkur, ná í skottið á þeim bestu – bæði í karla og kvennaflokkum. Til þess þurfum við bæði aukið fjármagn og við þurfum á því að halda að sundfjölskyldan heima á Íslandi sé samhent og samstiga. Við þurfum einnig að viðhalda áhuga fjölmiðla á íþróttinni, annars er hætt við því að við missum af lestinni.