Hrafnhildur á nýju Íslandsmeti
Í kvöld syntu þær stöllur Bryndís Rún Hansen 50 metra flugsund og Hrafnhildur Lúthersdóttir 100 metra fjórsund hér í Windsor í Kanada á HM25.
Bryndís Rún Hansen úr Sundfélaginu Óðni synti á tímanum 0:26,38 sem var 16/100 frá Íslandsmetinu hennar í morgun og lenti í 16. sæti í greininni. Það þýðir að hún kemst ekki í úrslitariðilinn. Til þess að ná inn í úrslitariðilinn hefði hún orðið að synda undir 0:25,76. Hún setti met í sinni grein í morgun 0:26,22. Þetta er mjög fínn árangur hjá Bryndísi sem gefur góðar vonir um HM50 í Búdapest næsta sumar.
Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH synti 100 metra fjórsund í undanúrslitum á nýju Íslandsmeti 1:0031 og lenti í 11.sæti. Þetta er mun betri árangur en í morgunþó hún hafi ekki náð inn í úrslitariðilinn, en til þess að ná þangað hefði Hrafnhildur þurft að synda undir 1:00,05. Hún synti í riðli með Katinku Hosszu. Gamla metið hennar Hrafnhildar er 1:00,69 og var sett á ÍM25 í fyrra. Hrafnhildur hefur átt frábært ár og er á fullu í undirbúningi fyrir HM50 í Búdapest næsta sumar.
Dagskrá morgundagsins byrjar á boðsundi 4x50 metra skriðsundi karla. Ætla má að í sveitinni syndi þeir Aron Örn Stefánsson, Davíð Hildiberg Aðalsteinsson, Kristinn Þórarinsson og Viktor Máni Vilbergsson. Því næst syndir Eygló Ósk Gústafsdóttir 50 metra baksund og við ljúkum morgunhlutanum okkar með Hrafnhildi Lúthersdóttur í 100 metra bringusundi.