Beint á efnisyfirlit síðunnar

Tvö landsmet á síðasta degi HM25

11.12.2016

Í dag á síðasta keppnisdegi HM25 í Windsor í Kanada er það Kristinn Þórarinsson sem ríður á vaðið í 200 metra baksundi.  Hann á best fyrir þetta sund 1:58,11.  Hann syndir hér í Windsor á tímanum 2:02,14 sem dugar honum í 40. sætið í greininni.  Íslandsmetið í greininni á Örn Arnarson síðan á EM25 á Spáni 2000 en það 1:52,90 og til samanburðar er síðasti tími hér inn í úrslitariðilinn 1:51,92.

Karlasveitin okkar í 4x100 metra fjórsundi er skipuð þeim Davíð Hildiberg Aðalsteinssyni, Viktori Mána Vilbergssyni, Kristni Þórarinssyni og Aroni Erni Stefánssyni.  Þeir luku keppni hér á nýju meti 3:39,48 sem gefur þeim 15. sætið.  Gamla landsmetið í greininni er síðan í Doha á HM25 2014 og er 3:43,16.  Til þess að komast inn í úrslitariðil hefði sveitin þurft að synda á 3:27,47. Flott sund hjá strákunum, sem þar með hafa allir lokið keppni á HM25 2016.

Þá er það kvennasveitin okkar í 4x100 metra fjórsundi, en hana skipa Eygló Ósk Gústafsdóttir, Hrafnhildur Lúthersdóttir, Bryndís Rún Hansen og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir. . Þær synda á tímanum 4:00,08 sem er nýtt met og gefur þeim 11 sæti.  Gamla metið var sett í Reykjavík 2011 og var 4:18,78. Síðasti tíminn í úrslitariðilinn er 3:56,64. Í næstu sætum eftir okkar sveit eru Finnland og Frakkland.  Fínt sund og fínn árangur.

Nú þegar HM25 er lokið er rétt að fara yfir árangurinn þessa 6 daga.  Sundfólkið okkar setti 8 Íslandsmet í einstaklingsgreinum og 7 landmet í boðsundum, Hrafnhildur náði 2 sinnum inn í undanúrslit og Bryndís Rún einu sinni.  Sundfólkið okkar allt var að bæta sína bestu tíma í flestum tilfellum, en við sjáum að það eru miklar framfarir í 25 metra brautinni bæði á Evrópu- og alþjóðavísu þannig að Íslandsmetin sem sett eru á mótinu duga í fæstum tilfellum inn í milli- eða úrslitariðla og gömul Íslandsmet dugðu engan veginn inn í úrslitariðla. Þetta, ásamt því hvernig við byggjum upp unglingastarfið okkar, er eitthvað sem við þurfum að skoða rækilega í sameiningu SSÍ, þjálfarar og félög á næstu vikum.

Hér er svo hlekkur á lokaúrslit mótsins

Myndir með frétt

Til baka