Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hrafnhildur og Anton Sveinn sundfólk ársins 2016

17.12.2016

Í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 15. desember 2016 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Hrafnhildur Lúthersdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar, er sundkona ársins 2016 og Anton Sveinn Mckee Sundfélaginu Ægi, er sundmaður ársins 2016.  

Eftirfarandi viðmið gilda  fyrir valið: 

  1. FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
  2. Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
  3. Íslandsmet og Norðurlandamet í báðum brautarlengdum voru metin
  4. Staðsetning á heimslista í 15. desember 2016 í báðum brautarlengdum var vegin saman
  5. Þátttaka í landsliðsverkefnum var metinn
  6. Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
  7. Ástundun sundfólksins var metin
  8. Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin

Langa brautin gildir 100% og stutta brautin 75% í mati á sundfólkinu

 

Sundkona ársins 2016 er Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir er 25 ára sundkona í Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hún hefur undanfarin ár verið við nám í Bandaríkjunum þar sem hún náði miklum framförum í íþrótt sinni. Hrafnhildur hefur verið á A-styrk Afrekssjóðs ÍSÍ og fengið styrk úr Ólympíusamhjálpinni.

 

Árið 2016 hefur verið mjög gjöfult fyrir Hrafnhildi í sundíþróttinni. Hún hefur sett 3 Íslandsmet í löngu brautinni og 5 í þeirri stuttu.  Hún komst þrisvar sinnum í undanúrslit í einstaklingsgreinum á Evrópumeistaramótinu í London EM50, synti sig jafnoft inn í úrslitariðla og uppskar verðlaun í öllum þrem greinunum, 2 silfur og 1 brons. Hún fylgdi góðum árangri á EM50 eftir á Ólympíuleikunum þar sem hún fór í tvígang inn i milliriðla og í úrslit í 100 metra bringusundi þar sem hún endaði í 6. sæti. Þess má geta að Hrafnhildur er fyrsta íslenska sundkonan til að tryggja sér sæti í úrslitariðli á Ólympíuleikum.  Nú í desember tók hún svo þátt í HM25 sem fram fór í Kanada.  Hún náði þar í þrígang inn í milliriðla og sett 5 Íslandsmet eins og áður er tæpt á.

 

Hrafnhildur er sem stendur í 10. sæti á heimslista í 200 metra bringusundi í löngu brautinni og í því 11. á sama lista í 100 metra bringusundi.

 

Árangur Hrafnhildar árið 2016 er besti árangur íslenskra kvenna í sundi og ef litið er til árangurs Íslendinga á þessum þremur stórmótum, EM50, ÓL og HM25 þá er hann með þeim betri í sundsögu Íslands og þar á Hrafnhildur verulegan hlut að máli.

 

Hrafnhildur er nú flutt til Íslands á ný og æfir undir handleiðslu Klaus Jürgen Ohk. Hún er jákvæð, kappsöm og mjög einbeitt þegar kemur að íþróttinni. Hún hefur á undanförnum árum þroskast mjög mikið sem afreksíþróttakona, setur sér skýr markmið og fylgir þeim eftir. Í samskiptum er hún gefandi og glaðleg.

 

 

Sundmaður ársins 2016 er Anton Sveinn Mckee

Anton Sveinn Mckee er 23 ára sundmaður í Sundfélaginu Ægi.  Hann stundar nú nám í The University of Alabama í Bandaríkjunum og er á styrk þar vegna sundiðkunnar.  Hann nýtur A- styrks Afrekssjóðs ÍSÍ.  Hann hefur á undanförnum árum náð mjög góðum árangri í bringusundi, en var áður langsundsmaður í skriðsundi.

Anton Sveinn stóð sig best allra íslenskra karla í sundi á árinu 2016. Þó hann hafi algerlega sleppt keppni í stuttu brautinni á árinu 2016 þá vegur þátttaka hans og árangur á EM50 í London og Ólympíuleikunum í Ríó það upp. Á EM50 synti hann sig inn í undanúrslita og úrslitariðla og varð áttundi í 200 metra bringusundi og síðan sjöundi í 100 metra bringusundi. Hann varð átjándi í 200 metra bringusundi og þrítugasti og fimmti í 100 metra bringusundi á ÓL.

Hann er sem stendur númer 46 á Heimslista í 200m bringusundi og númer 75 í 100m bringusundi í löngu brautinni.

Anton Sveinn afskaplega metnaðarfullur gagnvart sinni íþrótt og hefur náð miklum þroska undanfarin ár.  Hann hefur náð miklum framförum í íþrótt sinni og hefur alla burði til að ná enn lengra. Hann er fyrirmynd í keppni og ástundun hans er í alla staði til fyrirmyndar. Í samskiptum er hann styðjandi og ábyrgðarfullur.

 

 

Boðsundsveit Íslands í 4x100m fjórsundi

Boðsundssveitin okkar stendur vel að vígi fyrir komandi ár og bindum við miklar vonir við sundkonurnar sem þar eiga möguleika á sæti.

Sveitin varð í sjötta sæti á EM50 og er sem stendur í 10. sæti á Evrópulista og í 16. sæti á heimslista. Sá árangur dugði þó ekki til að fá þátttökurétt á ÓL 2016.

Á árinu 2016 hafa Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildi Lúthersdóttir, Bryndís Rún Hansen Sundfélaginu Óðni og Jóhanna Gerða Gústafsdóttir skipað sveitina.

Sundsamband Íslands mun halda áfram að byggja undir boðsundssveitir Íslands á komandi árum.

Myndir með frétt

Til baka