RIG 2017 lokið
Sundinu á RIG 2017 lauk nú rétt í þessu með úrslitum í síðustu 14 greinum mótsins.
Evrópumeistarinn Mie Östergaard Nielsen frá Danmörku byrjaði vel og sigraði 50m baksund áður en Færeyingurinn Roland Toftum sigraði 50m bringusund karla nokkuð örugglega. Jóhanna Gerða Gústafsdóttir úr Ægi sigraði 50m flugsund og Aron Örn Stefánsson úr SH sigraði 50m skriðsund.
400m skriðsund kvenna var synt í beinum úrslitum. Fyrstu 3 riðlarnir voru syntir fyrir hádegi en fjórði og hraðasti riðillinn var syntur seinnipartinn. Sara R. Nysted frá Suðuroyjar Svimjifjelag í Færeyjum sigraði greinina en Brynhildur Bolladóttir úr Breiðabliki var einungis rúmri sekúndu á eftir henni.
Kristinn Þórarinsson, Fjölni sigraði 200m fjórsund og Eygló Ósk Gústafsdóttir, Ægi sigraði 200m baksund. Magnus Jakupsson sem syndir fyrir Farum í Danmörku sigraði 100m baksund örugglega á meðan Kristinn Þórarinsson og Blikinn Brynjólfur Óli Karlsson enduðu í öðru og þriðja sæti eftir hörkukeppni.
Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH sigraði 100m bringusund og í 200m bringusundi karla sigraði Roland Toftum. Hin 17 ára María Fanney Kristjánsdóttir úr SH sigraði þá 200m flugsund áður en Kúveitinn Abbas Qali og Magnus Jakupsson áttu frábæra keppni í 100m flugsundi karla, þar sem Abbas sigraði með mun upp á 55/100 úr sekúndu.
Mie Nielsen sigraði svo 100m skriðsund á tímanum 55.95 sem hjó mjög nærri mótsmetinu í greininni. Kúveitinn Abdurrazaq AlDawaihi fékk svo síðustu gullverðlaun mótsins þegar hann sigraði 200m skriðsund karla en Blikinn Huginn Hilmarsson veitti honum góða keppni og var aðeins 27/100 úr sekúndu frá Kúveitanum.
Í lok mótsins voru svo veittar viðurkenningar frá styrktaraðilum mótsins. Þeir keppendur sem synda fimm stigahæstu sund mótsins fengu verðlaun en stuðst er við stigatöflu útgefna af Alþjóða Sundsambandinu, FINA en þar er mest hægt að fá 1000 stig.
Mie Östergaard Nielsen átti besta sund mótsins en fyrir 50m baksund fékk hún 850 stig. Hrafnhildur Lúthersdóttir átti næststigahæsta sundið en það var 50m bringusund þar sem hún fékk 822 stig. Í þriðja sæti var Eygló Ósk Gústafsdóttir með 813 stig fyrir 100m baksund, í fjórða sæti var Magnus Jakupsson með 799 stig fyrir 50m baksund og saman í fimmta sæti voru þau Signhild Joensen frá Færeyjum og Aron Örn Stefánsson með 740 stig fyrir 100m baksund og 100m skriðsund.
Sundsamband Íslands þakkar ÍBR og Sundfélaginu Ægi kærlega fyrir samstarfið á leikunum.