Víðistaðaskóli og Hagaskóli grunnskólameistarar 2017
Í gær fór Boðsundskeppni grunnskólanna fram í Laugardalslaug. Mótið hefur vaxið hratt milli ára en í þetta skiptið voru 64 sveitir skráðar til leiks. Í hverri sveit eru 8 sundmenn og því rúmlega 500 grunnskólanemar sem mættu til leiks.
Óhætt er að segja að mikið stuð myndaðist á bakkanum en þrátt fyrir örlitlar tafir og vandræði í nýja tæknibúnaðinum gekk mótið gríðarlega vel og voru krakkarnir sínum skólum til sóma í alla staði.
Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi og í flokkunum 5-7. bekkur og 8-10. bekkur. Boðsundið var 8x25 metrar með frjálsri aðferð. Eftir fyrstu umferð komust 9 sveitir áfram, þaðan komust 6 áfram í undanúrslit og í úrslitum syntu svo 3 sveitir.
Í flokki 5-7. bekkjar stóð Sveit 1 úr Víðistaðaskóla uppi sem sigurvegari á tímanum 2:05,60. Í öðru sæti var Sveit 1 úr Hraunvallaskóla á tímanum 2:07,06 og í því þriðja endaði Sveit 1 úr Grundaskóla á tímanum 2:13,87.
Í flokki 8-10. bekkjar sigraði Sveit 1 úr Hagaskóla á tímanum 1:43.54, í öðru sæti var Sveit 1 úr Holtaskóla á tímanum 1:49,65 og þriðja sætið hreppti svo Sveit 1 úr Brekkubæjarskóla. Þau syntu á 1:49,93, einungis 28/100 úr sekúndu frá Holtaskóla.
Verðlaunapeningar voru veittir fyrir efstu þrjú sætin í hvorum flokki og fengu sigurvegararnir afhentan eignabikar.
Sundsamband Íslands þakkar keppendum sérstaklega fyrir skemmtilegt og vel heppnað mót og einnig öllum þeim sem tóku þátt og hjálpuðu til við að gera mótið að veruleika.
Fleiri myndir munu birtast á Facebooksíðu Sundsambandsins í dag.