Stór dagur hjá Guðmundi Harðarsyni í gær
Það var stór dagur í gær hjá Guðmundi Harðarsyni þegar hann var sæmdur æðstu viðurkenningum þriggja aðila, ÍSÍ, ÍBR og SSÍ. Dagurinn byrjaði með því að Lárus Blöndal forseti ÍSÍ sæmdi hann Heiðurskrossi ÍSÍ. Í gærkvöldi var efnt til afmælisveislu í tilefni af 90 ára afmæli Sundfélagsins Ægis og þar kom Ingvar Sverrisson formaður ÍBR og sæmdi Guðmund gullmerki ÍBR, en þetta er aðeins 100. gullmerki sem ÍBR sæmir einstakling frá árinu 1944. Að því loknu stigu á stokk Hörður J. Oddfríðarson formaður SSÍ og Jón Hjaltason varaformaður SSÍ og gerðu Guðmund að Heiðursfélaga SSÍ.
Guðmundur Þorbjörn Harðarson er fæddur 10. febrúar 1946. Hann hóf sundæfingar með sundfélaginu Ægi 9 ára gamall og á ferli sínum setti hann fjölda drengja-, unglinga- og Íslandsmeta í sundi.
Hann hafði snemma áhuga á þjálfun, þjálfaði Sundfélagið Ægir í mörg ár og hefur verið ein af grunnstoðum félagsins alla tíð. Árið 1973 flutti hann til Bandaríkjanna með fjölskyldu sína, þar sem hann sótti framhaldsnám við University of Alabama í Tuscaloosa. Stundaði hann þar jafnframt sundæfingar og sundþjálfun. Guðmundur varð þjálfari með sundliði skólans, einu sterkasta skólaliði í Bandaríkjunum á þessum tíma.
Hann starfaði síðar sem aðalþjálfari sundliðs Randers í Danmörku þar sem hann bjó ásamt fjölskyldu sinni 1980 - 1985.
Guðmundur varð landsliðsþjálfari í sundi milli 1970 - 1980, m.a., á Ólympíuleikunum í München 1972 og 1976 í Montreal. Hann varð svo aftur landsliðsþjálfari Íslands fyrir og á Ólympíuleikunum í Seúl 1988.
Guðmundur hefur verið helsti tæknimaður Íslands á sviði sundsins og íþróttanna frá því hann kom frá námi í BNA. Hann átti sæti í tækninefnd LEN, Sundsambands Evrópu frá því á tíunda áratug síðustu aldar, allt þar til á síðasta ári og setið fyrir hönd ÍSÍ í tækninefnd Smáþjóðaleikanna um langt árabil. Hann hefur stuðlað að helstu framförum á sviði reksturs sundlauga enda fyrrum forstöðumaður tveggja stórra sundstaða og einnig látið málefni sundsins innan ÍSÍ til sín taka; setið í stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ frá upphafi. Guðmundur hefur afkastað miklu verki í þágu íþróttanna á Íslandi, svo ekki sé minnst á það verk sem hann hefur unnið fyrir sundíþróttina.