Beint á efnisyfirlit síðunnar

Ævintýraferð á Smáþjóðaleikana í San Marínó

29.05.2017

Landslið Íslands í sundi og körfubolta eru búin að vera tæpa tvo sólarhringa í óvissuferð um hluta Evrópu. Hópurinn átti bókað flug frá London í gær til Bologna en vegna bilunar í tölvukerfi hjá British Airways var því flugi aflýst.

Gist var í London og beðið átekta. Nú hefur hópurinn farið með ferju yfir Ermarsund frá Dover og er þessa stundina í rútu um 80 km frá flugvellinum í Brussel, þaðan sem ráðgert er að fljúga kl. 20:45 í kvöld með Brussels Airlines til Mílanó. Þaðan verður svo ekið sem leið liggur þá tæplega 400 km sem eftir eru til San Marinó. 

Farið var þess á leit við framkvæmdanefnd sundhluta Smáþjóðaleikana að mótinu yrði seinkað um einn dag í ljósi þess hve erfitt ferðalag íslensku keppendurnir eiga að baki, en það gekk því miður ekki upp. Þó hafa aðilar boðist til að hnika mótinu til um eina klukkustund, undarásir hefjast því klukkutíma seinna en ráðgert var í upphafi.

Þrátt fyrir þetta mótlæti í upphafi ferðar þá er virkilega góður andi í hópnum og allir gera sitt besta til að mæta óvissu og breytingum með jákvæðni. Eins og við öll vitum eru þarna á ferð sannir íslenskir afreksíþróttamenn sem eiga eftir að mæta tvíefldir til leiks til San Marínó og setja mark sitt á Smáþjóðaleikana. Fyrir síðasta spölinn sendum við þeim bestu óskir um góða ferð og fyllum kassann af lofti áður en við hrópum kröftuglega:  Áfram Ísland !

 

 

 

 

Til baka