Smáþjóðaleikum lokið með landsmeti
Síðasta keppnishlutanum á Smáþjóðaleikunum er nú lokið. Synt var í beinum úrslitum í greinum dagsins.
Hrafnhildur Lúthersdóttir bætti í gullsafnið sitt þegar hún sigraði 400m fjórsund kvenna á tímanum 4:55,05. Sunneva Dögg Robertson synti á 5:07,43 sem dugði henni í 4. sæti.
Viktor Máni Vilbergsson synti 400m fjórsund á 4:49,89 og hafnaði í 5. sæti.
Í 800m skriðsundi kvenna synti Bryndís Bolladóttir á tímanum 9:17,18 og endaði í 5. sæti.
Hafþór Jón Sigurðsson synti svo 1500m skriðsund á tímanum 16:19,55 sem gaf honum fjórða sætið. Þröstur Bjarnason synti sömu grein á 16:43,84 og endaði í sjötta sæti.
Þá var komið að boðsundunum. Kvennasveitin í 4x100m skriðsundi sigraði á tímanum 3:49,24. Sveitina skipuðu þær Bryndís Rún Hansen, Eygló Ósk Gústafsdóttir, Bryndís Bolladóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Karlarnir höfnuðu í 2. sæti í boðsundinu en þeir fóru 4x100m skriðsund á nýju landsmeti, 3:23,78. Sveitina skipuðu þeir Aron Örn Stefánsson, Kristófer Sigurðsson, Kristinn Þórarinsson og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson. Gamla metið var 3:27,66 og var orðið 10 ára gamalt, sett á Smáþjóðaleikunum í Mónakó.