Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundfélag Hafnarfjarðar aldursflokkameistarar 2017

25.06.2017

Aldursflokkameistaramóti Íslands, AMÍ 2017, lauk fyrr í dag og var það Sundfélag Hafnarfjarðar sem stóðu uppi sem sigurvegarar með 710 stig. Stigakeppnin var gífurlega spennandi allt mótið og nánast alltaf innan við 30 stig á milli tveggja efstu liðanna. Endaði keppnin þannig að einungis 6 stig skildu toppliðin að. Íþróttabandalag Reykjanesbæjar lenti í öðru sæti með 704 stig og Íþróttabandalag Reykjavíkur hafnaði í því þriðja með 547 stig. Lokastigastöðuna má sjá í tengil hér neðar í fréttinni.

Eftir að keppni lýkur á AMÍ kemur lokahóf en þar gera keppendur, þjálfarar og fylgdarfólk vel við við sig í mat og drykk eftir krefjandi helgi í lauginni. Þar eru einnig afhentar hinar ýmsu viðurkenningar, m.a. fyrir stigahæsta sundfólkið í aldursflokkum og auðvitað AMÍ bikarinn sjálfur. 

Stjórn SSÍ veitti Sundfélaginu Ægi sérstakan platta og þakkaði með honum fyrir frábært samstarf í aðdraganda og á AMÍ 2017. 
Lilja Ósk Björnsdóttir, formaður Ægis, tók við plattanum og notaði tækifærið á sviðinu og útnefndi Íþróttabandalag Reykjanesbæjar sem prúðasta lið AMÍ 2017 og komu fyrirliðar þess og tóku á móti stærðarinnar virðingarvotti frá mótshöldurum.

Þá var komið að veitingu Ólafsbikarsins, en sá bikar er gefinn í minningu Ólafs Þórs Gunnlaugssonar og á að fara til þess einstaklings sem metinn er hafa unnið besta afrek í einni af eftirtöldum greinum á mótinu: 400 metra fjórsund, 400, 800 eða 1500 metra skriðsund. Þá ber að taka tillit til aldurs sundfólksins þegar valið fer fram.
Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB hlaut Ólafsbikarinn árið 2017 fyrir 400 metra skriðsund sem skilaði 493 Fina stigum.
Sundsamband Íslands stóð einnig fyrir því að stofnaður yrði Minningarsjóður um Óla Þór og það er venjan að úr þeim sjóði sé veittur styrkur. Í ár eru veittar kr. 15.000,00 með bikarnum.
Samkvæmt reglugerð á að veita sömu upphæð til fatlaðs sundfólks. Róbert Ísak Jónsson, SH/Firði hlaut peningastyrk úr sjóðnum í ár.

Aldursflokkaverðlaun einstaklinga eru veitt þeim keppendum sem ná bestum samanlögðum árangri í sínum stigahæstu greinum í samræmi við stigatöflu FINA í flokki pilta og stúlkna og í flokkum drengja og telpna. Í flokkum sveina og meyja er reiknaður árangur úr 200 metra fjórsundi, 400 metra skriðsundi og svo stigahæstu grein þar fyrir utan.
Fyrir utan minningarplattana fengu allir sem fengu aldursflokkaverðlaunin, gjafabréf frá Nike. 

Í flokki sveina með samtals 1075 stig fyrir 400 metra skriðsund, 200 metra fjórsund og 200 metra skriðsund, Veigar Hrafn Sigþórsson úr SH.

Í flokki meyja með samtals 1440 stig fyrir 400 metra skriðsund, 200 metra fjórsund og 800 metra skriðsund, Eva Margrét Falsdóttir úr ÍRB.

Í flokki drengja með samtals 1350 stig fyrir 400 metra skriðsund, 200 metra skriðsund og 400 metra fjórsund,  Aron Fannar Kristínarson úr ÍRB.

Í flokki telpna með samtals 1615 stig fyrir 100 metra skriðsund, 200 metra skriðsund og 400 metra skriðsund, Kristín Helga Hákonardóttir úr Breiðabliki.

Í flokki pilta með samtals 1184 stig fyrir 100 metra skriðsund og 100 metra baksund, Brynjólfur Óli Karlsson úr Breiðabliki.

Í flokki stúlkna með samtals 1369 stig fyrir 400 metra skriðsund og 200 metra skriðsund, Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB.

 

Við þökkum keppendum, þjálfurum, fararstjórum, foreldrum, starfsfólki og öllum þeim sem komu að mótinu með einum eða öðrum hætti kærlega fyrir frábæra helgi í lauginni.  

 

Heildarstigastaða í stigakeppni félaga á AMÍ 2017 (link)

Úrslit allra greina á AMÍ 2017 ásamt ýmissa tölfræðiupplýsinga

Myndir á Facebooksíðu Ægis og Facebooksíðu SSÍ

Myndir með frétt

Til baka