Beint á efnisyfirlit síðunnar

Yfirlýsing

21.10.2017

YFIRLÝSING

Fyrir hönd sundhreyfingarinnar á Íslandi þakka ég Hildi Erlu Gísladóttur fyrir að koma fram með sögu sína í Fréttablaðinu í dag. Það lýsir kjarki og áræði, en það jafnframt hvetur okkur hin til frekari verka til að uppræta það mein sem kynbundið ofbeldi er.

Sundsamband Íslands brást við þegar mál tengd viðkomandi sundþjálfara kom fyrst upp á sínum tíma, með því að upplýsa félagið, sem var hans vinnuveitandi, um málið.  Í ljósi sögunnar má segja að Sundsamband Íslands hefði getað brugðist við með meira afgerandi hætti. Sú saga er til að læra af.

Þegar hins vegar mál Hildar Erlu kom upp á yfirborðið árið 2008, þá brást Sundfélag Hafnarfjarðar við með því að segja þjálfaranum upp störfum samstundis og styðja Hildi Erlu í því ferli sem þá fór í gang. Jafnframt upplýsti félagið SSÍ um málin og í framhaldi af því sendi SSÍ tilkynningu um hann til LEN, Evrópska sundsambandsins og FINA, Alþjóðasundsambandsins. Í þau skipti sem haft hefur verið samband við SSÍ með fyrirspurnir um þjálfarann, hefur alltaf verið upplýst um þetta tiltekna mál og viðkomandi bent á að ræða beint við Sundfélag Hafnarfjarðar til að fá upplýsingar frá fyrstu hendi.

Það er sundhreyfingunni á Íslandi mjög mikilvægt að traust ríki milli iðkennda, þjálfara, félaga og sambands. Öll ofbeldismál, hverju nafni sem þau nefnast, eru brot á því trausti.  Slík brot koma í veg fyrir að einstaklingar njóti sín og íþróttarinnar. Slík brot koma í veg fyrir að einstaklingar fari með heilbrigða lífsreynslu út í lífið og slík brot koma í veg fyrir að heilbrigð íþrótt vaxi og dafni á eðlilegan hátt. Það er því mikilvægt að bregðast við án tafar og herða á þeirri vinnu sem þegar er farin í gang til að koma í veg fyrir að slík brot eigi sér stað.

Stjórn Sundsambands Íslands samþykkti á fundi sínum þann 31. ágúst síðastliðinn að setja í gang fræðslu fyrir félög og sundfólk, um einelti, ofbeldi af öllu tagi og geðheilsu. Markmiðið er að sundfólk og félög verði upplýst um hvað er eðlilegt og hvað ekki, hvaða viðbrögð eru viðeigandi og svo framvegis. Efni frá ÍSÍ verður notað og fengnir utanaðkomandi aðilar og fagfólk til verka.

Sundsamband Íslands hvetur þá sem telja að á sér hafi verið brotið innan hreyfingarinnar að hafa samband við undirritaðan eða skrifstofu SSÍ. SSÍ mun greiða leið þeirra að viðeigandi þjónustu fagaðila.

Í lokin þakka ég Hildi Erlu aftur fyrir að segja sögu sína og geri mér vonir um að hún verði til þess að skapa heilbrigðara (sund)samfélag.

Reykjavík 21.október 2017

Hörður J. Oddfríðarson

Formaður Sundsambands Íslands

hordur@iceswim.is

s. 7706067

 

Til baka