Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hrafnhildur bætti Íslandsmetið í 50m bringusundi

13.12.2017

Evrópumeistaramótið í 25m laug er hafið í Kaupmannahöfn og það með látum. Hrafnhildur og Eygló Ósk hófu leik.

Hrafnhildur Lúthersdóttir gerði sér lítið fyrir og bætti eigið Íslandsmet í 50m bringusundi um 22/100 úr sekúndu þegar hún náði sjöunda besta tímanum í undanrásum. Hrafnhildur synti á 30,20 en 16 hröðustu fara í undanúrslit seinnipartinn í dag. Reglur mótsins kveða á um að einungis 2 frá hverju landi geta farið áfram í undanúrslit og verður Hrafnhildur því með sjötta besta tímann í undanúrslitunum, þar sem Finnar áttu 3 sundkonur á topp 6 og dettur því ein út. 

Gamla met Hrafnhildar í greininni var sett á ÍM25 í Laugardalslaug fyrir tæpum mánuði síðan.

Eygló Ósk Gústafsdóttir synti 100m baksund á tímanum 1:00,22 sem er örlítið frá hennar besta. Þetta skilaði henni í 29. sæti en 16. tími inn í undanúrslit var 59,05. Eygló á þó eftir bæði 50m og 200m baksund og því næg tækifæri fyrir hana á þessu móti.

Íslandsmet Eyglóar er 57,42 - synt í Netanya í Ísrael fyrir tveimur árum.

RÚV verður með beina útsendingu frá úrslitahlutunum á mótinu og hefst útsending kl. 15:55

Myndir með frétt

Til baka