Beint á efnisyfirlit síðunnar

Sundfólk ársins 2017

23.12.2017

Sundfólk ársins 2017

Í samræmi við samþykkt stjórnar SSÍ 18. desember 2017 og samþykktir SSÍ um val á sundfólki ársins er ljóst að Hrafnhildur Lúthersdóttir Sundfélagi Hafnarfjarðar, er sundkona ársins 2017 og Davíð Hildiberg Aðalsteinsson Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar, er sundmaður ársins 2017.  

Eftirfarandi viðmið gilda  fyrir valið: 

  1. FINA stig úr bestu grein sundfólksins úr báðum brautarlengdum voru vegin saman
  2. Árangur sundfólksins á Íslandsmeistaramótum í báðum brautarlengdum var metinn miðað við úrslit greina
  3. Íslandsmet og alþjóðleg met í báðum brautarlengdum voru metin
  4. Staðsetning á heimslista í 18. desember 2017 í báðum brautarlengdum var vegin saman
  5. Þátttaka í landsliðsverkefnum var metin
  6. Árangur í landsliðsverkefnum var metinn
  7. Ástundun sundfólksins var metin
  8. Íþróttamannsleg framganga sundfólksins var metin

Langa brautin gildir 100% og stutta brautin 75% í mati á sundfólkinu

Sundkona ársins 2017 er Hrafnhildur Lúthersdóttir
Hrafnhildur Lúthersdóttir er 26 ára sundkona í Sundfélagi Hafnarfjarðar. Hún hefur æft í Hafnarfirðinum síðastliðið árið eftir að hafa komið heim úr námi og æfingum í Bandaríkjunum. Hrafnhildur hefur verið á A-styrk Afrekssjóðs ÍSÍ og fengið styrk úr Ólympíusamhjálpinni.

Hrafnhildur hefur staðið sig gífurlega vel á árinu 2017. Hún hefur sett 4 Íslandsmet í stuttu brautinni og 1 í þeirri löngu. Hún komst í undanúrslit í 50m bringusundi á Heimsmeistaramótinu í 50m laug, HM50 í sumar og hafnaði þar í 10. sæti. Hún komst svo í úrslit 50m bringusunds á Evrópumeistaramótinu í 25m laug í desember en þar endaði hún í 5. sæti. Þá vann hún 4 gull á Smáþjóðaleikunum í San Marino í sumar.

Hrafnhildur er í 15. sæti á heimslista í 50m bringusundi í löngu brautinni og í því 12. í sömu grein í 25m laug, eftir EM25. 

Árangur Hrafnhildar árið 2017 verður að teljast glæsilegur en hún byggði vel ofan á afrek sín árið 2016. Hrafnhildur er frábært andlit fyrir sundíþróttina á Íslandi og er til fyrirmyndar í allri framkomu. Hún er orðin ein besta íþróttakona Íslandssögunnar og því vel að þessari viðurkenningu komin.

Sundmaður ársins 2017 er Davíð Hildiberg Aðalsteinsson

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson er 27 ára sundmaður í Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar. Hann stundaði nám í Arizona State háskólanum í Bandaríkjunum og útskrifaðist sem arkitekt í fyrrasumar en meistararitgerð hans fjallaði um fjölnota sundaðstöður.Hann hefur síðan þá æft í Reykjanesbæ Hann hefur lengi verið með betri baksundsmönnum landsins.

Davíð Hildiberg stóð sig best allra íslenskra karla í sundi á árinu 2017. Fyrst ber að telja gullið á Norðurlandameistaramótinu hér í Reykjavík í byrjun desember en hann sigraði 100m baksund. Þá komst hann í úrslit í 50m baksundi á sama móti og endaði fjórði. Davíð vann svo til tveggja bronsverðlauna í einstaklingssundum á Smáþjóðaleikunum í San Marino í sumar. Hann var í landssveit Íslands í boðsundi sem setti 2 landsmet á mótinu og unnu til tveggja silfurverðlauna.

Davíð þykir kurteis og rólegur í öllum samskiptum og hvetjandi og styðjandi við fólkið í kringum sig. Hann er frábær fyrirmynd yngra sundfólks og alltaf verið metnaðarfullur í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Hann er jákvæður og hefur stundað íþróttina af miklum þrótt síðastliðin ár. Hann er því vel að þessari viðurkenningu kominn.

Til baka