Upplýsingagátt SSÍ hefur verið opnuð
Sundsamband Íslands hefur opnað upplýsingagátt á heimasíðu sinni, í kjölfar þeirrar miklu umræðu sem hefur verið um kynferðislegt ofbeldi í samfélaginu á undanförnum vikum og mánuðum. Íþróttakonur hafa nú stigið fram með sögur í tengslum við íþróttaiðkun og til að styðja þolendur kynferðisofbeldis eru settar fram í upplýsingagáttinni leiðbeiningar um hvert má leita, auk þess sem við öll erum brýnd til að horfa í kringum okkur og láta vita ef við sjáum eða heyrum um eitthvað sem ekki er telst vera eðlilegt. Þá er í upplýsingagáttinni tengill á Aga- og siðareglur SSÍ, ýmislegt efni frá ÍSÍ og nokkrir tenglar sem gætu reynst gagnlegir.
Við hvetjum forsvarsfólk sundfélaga og -deilda til að setja félögunum Aga- og siðareglur og koma sér upp viðbragðsáætlunum við hverskonar ofbeldi. Þá er nauðsynlegt að upplýsa alla sem að störfum félaganna koma um slíkar reglur og viðbragðsáætlanir.
Upplýsingagáttin er ekki fullmótuð og ekki fullkomin. Við tökum gjarnan við ábendingum um efni sem gæti átt heima í gáttinni og þiggjum með þökkum ábendingar um það sem betur gæti farið. Allt slíkt má senda á iceswim@iceswim.is