Beint á efnisyfirlit síðunnar

ÍM50 hafið - 3 EM lágmörk á fyrsta degi

21.04.2018

Íslandsmeistaramótið í 50m laug hófst í gær í Laugardalslaug. Í ár er mótið samvinnuverkefni SSÍ og Íþróttasambands fatlaðra (ÍF) en í undanrásum synda bæði fatlaðir og ófatlaðir saman í riðlum og veitir ÍF verðlaun eftir tímum í undanrásum. Keppendur á vegum SSÍ synda svo úrslitahluta að kvöldi líkt og tíðkast hefur.

Góður árangur náðist í lauginni í gær, þ.á.m. 3 lágmörk á EM50. Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Neptun í Svíþjóð synti undir lágmarki á EM50 í 200m baksundi og var þetta hennar þriðja lágmark á mótið. Fyrir hafði hún náð lágmörkum í 50m og 100m baksundi.

Predrag Milos úr SH synti aftur undir EM50 lágmarki í 50m skriðsundi og ljóst að hann sé í feiknaformi þessa dagana. Hann synti fyrst undir lágmarkinu fyrir 2 vikum síðan á Ásvallamóti SH.
Anton Sveinn McKee úr SH var svo þriðji aðilinn til að ná lágmarki á mótið en hann náði lágmarkinu í 100m bringusundi og var um sekúndu undir því.

5 keppendur syntu undir B-lágmarki á Ólympíuleika Æskunnar (YOG) en það voru þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH, Katarína Róbertsdóttir úr SH og Snæfríður Sól Jórunnardóttir úr AGF í Danmörku sem náðu allar í 50m skriðsundi, Karen Mist Arnþórsdóttir úr ÍRB náði lágmarkinu í 100m bringusundi og Brynjólfur Óli Karlsson, Breiðabliki, synti undir því í 200m baksundi.

Þá var ein sundkona sem synti undir lágmarki á Norðurlandameistaramót Æskunnar (NÆM). Það var hún Kristin Helga Hákonardóttir í 50m skriðsundi.

Sveinasveit SH stórbætti svo aldursflokkamet í 4x200m skriðsundi í úrslitahlutanum. Þeir syntu á tímanum 10:20,35 en gamla metið var í eigu ÍRB; 10:54,73. Sveit SH skipuðu þeir Birnir Freyr Hálfdánarson, Bergur Fáfnir Bjarnason, Andri Már Kristjánsson og Björn Yngvi Guðmundsson.
Mótið heldur áfram bæði laugardag og sunnudag með undanrásum kl. 10 og úrslitum kl. 17:00

Úrslitasíða, þar sem finna má ráslista og öll úrslit:

https://www.swimrankings.net/services/CalendarFile/21317/live/index.html

 

Til baka