Beint á efnisyfirlit síðunnar

Íslandsmet í síðustu grein á ÍM50

22.04.2018

Þriðja og síðasta degi Íslandsmeistaramótsins í 50m laug var að ljúka rétt í þessu.

Eitt Íslandsmet féll þegar karlasveit SH sigraði 4x100m skriðsund á tímanum 3:31,08 en gamla metið var 3:31,48 í eigu SH-inga. Nýju metasveitina skipuðu þeir Aron Örn Stefánsson, Kolbeinn Hrafnkelsson, Predrag Milos og Ólafur Árdal Sigurðsson.

Daði Björnsson úr SH tvíbætti drengjametið í 200m bringusundi en í undanrásunum bætti hann eigið met um 2/100 úr sekúndu, fór á 2:34,58. Daða nægði það ekki því hann sigraði greinina í úrslitahlutanum á tímanum 2:30,24 og stórbætti eigið met. Sigurtíminn dugði einnig sem lágmark á Norðurlandameistaramót Æskunnar (NÆM).
Fannar Snævar Hauksson úr ÍRB bætti 8 ára gamalt drengjamet Kristins Þórarinssonar í 50m flugsundi um 3/100 úr sekúndu en Fannar synti á tímanum 28,13.
Patrik Viggó Vilbergsson, Breiðablik synti undir NÆM lágmarki í 400m fjórsundi en hann stóð uppi sem sigurvegari þar á tímanum tímanum 4:46,24 mín.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH synti undir B-lágmarki á YOG, Ólympíudaga Æskunnar þegar hún sigraði 50m flugsund á 28,73 sek. Brynjólfur Óli Karlsson synti einnig undir B-lágmarki á YOG í 50m baksundi.
Eydís Ósk Kolbeinsdóttir úr ÍRB synti undir B-lágmarki á YOG í 800m skriðsundi og Adele Alexandra Pálsson úr SH fór undir NÆM lágmark í sömu grein.

Í boðsundum kvöldsins setti sveinasveit SH aldursflokkamet 11-12 ára í 4x100m skriðsundi. Þeir syntu á 4:44,54 og stórbættu þannig metið sem var 5:07,53. Sveitina skipuðu þeir Birnir Freyr Hálfdánarson, Bergur Fáfnir Bjarnason, Andri Már Kristjánsson og Björn Yngvi Guðmundsson.

Og þess ber svo að geta að á föstudaginn láðist að tilkynna um sveinamet 200m skriðsundi eftir fyrsta sprett í 4x200m skriðsundi. Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH synti sprettinn á 2:19,40 og bætti þar með fimm ára gamalt met Brynjólfs Óla Karlssonar úr Breiðabliki tæpa sekúndu.

Á ÍM50 eru veittar sérstakar viðurkenningar fyrir bestu afrek mótsins og einnig afrek á milli íslandsmeistaramóta.

Pétursbikarinn er gefinn í minningu Péturs Kristjánssonar sundkappa úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda Péturs. Pétursbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í karlaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Pétursbikarinn hlaut að þessu sinni Viktor Máni Vilbergsson úr SH fyrir 200m bringusund sem hann synti á Smáþjóðaleikunum í maí í fyrra, 2:17,21 – 793 FINA stig.

Kolbrúnarbikarinn er gefinn í minningu Kolbrúnar Ólafsdóttur sundkonu úr sunddeild Ármanns. Gefandi gripsins er fjölskylda og vinir Kolbrúnar. Kolbrúnarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega í kvennaflokki fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið frá lokum íslandsmeistaramóts í 50 metra laug, sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands, til loka næsta íslandsmeistaramóts í 50 metra laug.

Hrafnhildur Lúthersdóttir úr SH vann Kolbrúnarbikarinn að þessu sinni fyrir 50m bringusund sem hún synti í Búdapest í júlí í fyrra, 30,71 – 884 FINA stig.

Sigurðarbikarinn er gefinn í minningu Sigurðar Jónssonar Þingeyings. Gefandi hans er fjölskylda Sigurðar. Sigurðarbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í bringusundi, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands. 

Anton Sveinn McKee úr SH vann Sigurðarbikarinn að þessu sinni fyrir 100m bringusund á ÍM50 2018. Hann synti á 1:01,72 og fékk fyrir það 790 FINA stig.

Ásgeirsbikarinn er gefinn í minningu Ásgeirs Ásgeirssonar fyrrverandi forseta Íslands. Gefandi er forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Ásgeirsbikarinn er farandgripur sem er veittur árlega fyrir besta afrek í sundi, samkvæmt stigatöflu FINA, unnið á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug sem haldið er á vegum Sundsambands Íslands.

Það var Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Neptun sem hlaut Ásgeirsbikarinn að þessu sinni fyrir 100m baksund á ÍM50 2018. Hún synti á 1:02,45 og fær fyrir það 806 FINA stig.

Úrslitasíða, þar sem finna má ráslista og öll úrslit: https://www.swimrankings.net/services/CalendarFile/21317/live/index.html

 

 

Til baka