Eygló Ósk í 50 metra baksundi í morgun
Eygló Ósk Gústafsdóttir synti í morgun 50 metra baksund á Evrópumeistaramótinu í Glasgow. Hún fór á tímanum og 0:29,93 og lenti í 37. sæti í greininni. Þetta er töluvert frá hennar besta í greininni, hún synti t.a.m. á 0:28,61 í Danmörku 2014 og á 0:29,37 í sumar. Georgia Davies bætti Evrópumetið hér í undanrásum um 2/100 úr sekúndu þegar hún synti á 0:27,21. Það verður gaman fylgjast með henni í kvöld og annað kvöld í úrslitahlutunum.
Íslandsmetið í 50 metra baksundi á Ingibjörg Kristín Jónsdóttir SH frá því á HM í Búdapest á síðasta ári, 00:28,53.
Eygló Ósk hefur verið að fást við bakmeiðsli undanfarið ár og hafa æfingar hennar tekið mið af því. Hún segist vera rétt að byrja keppnisuppbyggingu á ný og markmiðið er að vera komin í toppform á ný fyrir Heimsmeistaramótið í löngu brautinni, sem fram fer í Suður Kóreu á næsta ári. Aðspurð sagðist hún ekki vilja leggja áherslu á HM25 í Kína nú í desember, það væri líklega of snemmt, langt ferðalag sem gæti truflað batann hennar og hún vill einbeita sér að löngu brautinni.
Eygló er flutt heim til Íslands á ný, eftir að hafa æft og þjálfað í 11 mánuði í Svíþjóð. Hún mun því æfa á ný undir stjórn síns gamla þjálfara Jacky Pellerin í Sunddeild Fjölnis. Hún syndir 100 metra baksund hér á EM50 á mánudaginn.