Beint á efnisyfirlit síðunnar

Að gefnu tilefni

21.08.2018

SSÍ hefur um töluvert langan tíma sent umsóknir til að íslenskir sunddómarar eigi möguleika á að dæma á EM, HM, EMU og fleiri alþjóðlegum mótum. Þessar umsóknir eru byggðar á tillögum dómaranefndar SSÍ, svo var einnig nú á EM50. Í langflestum tilfellum höfum við fengið úthlutað samkvæmt óskum okkar, sem byggist á því að við höfum átt um langt árabil manneskju í LEN TSC og verið í góðu samstarfi við FINA TSC, en þar hafa Danmörk og Svíþjóð verið mjög áhrifamikil.

Á listum FINA yfir alþjóðlega dómara eru nú 9 Íslendingar sem eru í hópi 50 annarra frá öðrum NSF löndum á þessum listum. Samtals eru 858 manns á þessum listum og búast má við að frekar fjölgi á þeim en fækki.

Tilgangur okkar Íslendinga að hafa fólk á þessum listum er þrenns konar; í fyrsta lagi til að geta haldið alþjóðleg mót á Íslandi og fækka þeim skiptum þar sem sundfólkið okkar þarf að sækja út fyrir landsteinana til að ná sér í keppnisrétt á mót FINA og LEN. Í öðru lagi til að auka fagmennsku í sunddómgæslu á Íslandi og í þriðja lagi að Íslendingar séu sýnilegir í sem flestum hlutverkum á alþjóðlegum sundmótum innanlands og utan.

SSÍ sótti um fyrir og fékk pláss fyrir Sigurð Óla Guðmundsson sem dómara á EM50 í Glasgow.  Hann er á lista FINA um alþjóðlega dómara. Hann var þar í góðum hópi dómara frá ýmsum löndum Evrópu.

Á mótinu starfaði einnig Þórunn Kristín Guðmundsdóttir, sem situr fyrir hönd SSÍ og NSF í TSC (sundtækninefnd) LEN. Hún starfaði á mótinu sem nefndarmaður í TSC og hún tók ekki sæti frá neinum íslenskum dómara.

TSC nefndin tók miklum breytingum árið 2016. Þá hættu í nefndinni fólk sem hafði unnið mikið og gott starf í þágu sundíþrótta í langan tíma og við tóku nýir einstaklingar. Nýrri nefnd þótti ávinningur í því að allt nefndarfólkið fengi reynslu „beint í æð“ eins og formaður nefndarinnar orðaði það og nefndin tók því þá ákvörðun, þar sem flestir í nefndinni eru á sínu fyrsta tímabili, að nefndarfólkið ætti að standa í sem flestum stöðum á mótinu í Glasgow, en tilgangurinn var fyrst og fremst sá að nefndarfólk fengi betri yfirsýn á þau atriði sem skipta máli fyrir sundíþróttina í Evrópu og verða betri mótstjórnendur fyrir hönd LEN, verði hæfari nefndarmenn semsagt.

LEN TSC heyrir beint undir stjórn LEN, en stjórnin þarf að staðfesta eða hafna tillögum nefndarinnar eftir atvikum. Hlutverk nefndarinnar er að móta stefnu um mótahald á vegum LEN og þá eru öll mót undir s.s. eins og Evrópumót í sundíþróttum (sem við köllum EM50) Evrópumót í 25 metra braut (EM25), Evrópumót unglinga (EMU). Nefndin gerir tillögur til stjórnar LEN um dagsetningar og staðsetningar þessara móta og setur upp dagskrá þeirra, þ.e. raðar niður sundgreinum á daga og ákveður röð greina.

Nefndin tekur afstöðu til fjölgunar sundgreina og á Evrópumótum og hver fjöldi keppenda má vera frá hverju landi. Hún tekur einnig afstöðu til og sendir tillögur um aldursflokka t.d. á EMU og hvort og þá hver eigi að vera lágmarksaldur á EM50 og EM25. Þá framkvæmir TSC greiningar á aldri þátttakenda á Evrópumóti Garpa.

Sundtækninefndin hugar að tæknilegum framförum í framkvæmd sundmóta, eins og t.d. rafrænni skráningu og utanumhaldi upplýsinga og er nú samstarfi við Swimrankings.net í því starfi.

Nefndin skrifar handbók um framkvæmd Evrópumóta, skilgreinir kröfur um tæknibúnað við framkvæmd mótanna og tekur út keppnisaðstöðu á þeim stöðum þar sem Evrópumótin eru haldin. 

Sundtækninefndin er í samskiptum við þátttökuþjóðirnar og kannar í því sambandi hug þeirra á nýjungum í tæknilegri framkvæmd Evrópumóta.

Þá ákveður nefndin hlutverk nefndarmanna í lykilstöðum á Evrópumótum, en lykilstöður eru t.d. yfirdómarar, ræsar, mótsstjórar, yfirtímaverðir (Control room Supervisor), eftirlit í keppendaherbergi, þulir og svo framvegis. Þessum hlutverkum er úthlutað nánast undantekningarlaust með 4-6 mánaða fyrirvara. Í allar ofangreindar stöður eru skipaðir einstaklingar úr TSC, nema í þularstarf og nú síðari ár í stöðu ræsa.

Þá er það í verkahring nefndarinnar að funda með fararstjórum og þjálfurum á EM50, kynna þeim framtíðaráform og stefnu LEN og leita álits þeirra á þeim tillögum sem fyrir liggja.

Nefndin skipuleggur dómaranámskeið þar sem nefndarmenn kenna og gerir vinnuplagg fyrir dómara á öllum Evrópumótum.

Af allri þessari upptalningu má sjá af hverju nefndin taldi mikilvægt að nefndarfólk kynnti sér í eigin persónu verkefni sem tengjast framkvæmd EM50 í Glasgow.

Reglur LEN segja til um að hvert land fyrir sig verði að tilnefna sitt fólk í nefndir sambandsins. Þannig var Þórunn Kristín skipuð í LEN TSC eftir tilnefningu SSÍ. Hún var önnur af tveimur konum sem formaður og þáverandi varaformaður töldu geta komið til greina í þessa stöðu. SSÍ hefur um langt árabil haft mikið og gott samstarf við Norræna sundsambandið NSF, um tilnefningar í nefndir LEN og FINA og við höfum lagt á það áherslu að halda sæti okkar í TSC og garpanefndinni MAC, því það eru þær greinar sem eru virkastar á Íslandi.  og því fékkst þessi niðurstaða eftir mikla vinnu og samráð við aðrar NSF þjóðir.

Við erum einnig að vinna að því að koma okkar fólki að í mannvirkjanefnd LEN og í nefnd LEN sem vinnur að ungbarnasundi.

Árið 2016 settu NSF þjóðirnar sér viðmið um hvað skyldi leggja til grundvallar við val á fólki til að tilnefna inn til stjórnar LEN. Í fyrsta lagi var það markmið okkar að fjölga konum í nefndum og stjórn LEN. Þá var lagt til grundvallar fyrir TSC, vegna þess að það var ljóst að meirihluti nefndarfólks sem var ætlaði ekki að sækjast eftir endurútnefningu, að viðkomandi aðili væri fyrrum sundmaður/kona, hefði einhverja þjálfunarreynslu, væri ennþá virk í sundhreyfingu síns lands, hefði innsýn í dómgæslu á sundmótum í sínu heimalandi, hefði reynslu í erlendum samskiptum og að lokum voru öll nöfnin sem komu til álita rædd á stjórnarfundi NSF. Þetta síðasta skipti máli því við ætlumst til þess að norrænu fulltrúarnir vinni saman og að öll norrænu löndin fái upplýsingar úr öllum nefndum þó svo að hvert og eitt land eigi ekki mann í viðkomandi nefnd.

Í heildina getum við á Íslandi verið nokkuð sátt við niðurstöðuna sem fékkst í kjölfar þessa góða samstarfs innan NSF. Norðulandaþjóðirnar eiga þrjá fulltrúa í stjórn LEN af 15, 4 fulltrúa í TSC af 14 (1 Íslendingur), 2 einstaklinga af 14 í TDC (dýfingar), 2 einstaklinga af 14 í TOWSC (víðavatnssund),  1 einstakling af 14 í TSSC (samhæfð sundfimi), 3 einstaklinga af 13 í MaC (garpar) (1 Íslendingur varaformaður), 2 einstaklingar af 11 í MedC (heilbrigðisnefndin), 2 af 6 einstaklingum í PressCom (fjölmiðlanefnd) og 1 af 5 í aganefnd LEN. Þar að auki er að fara af stað mannvirkjanefnd og ungbarnasundsnefnd og við erum að vinna að því í samráði við hin NSF löndin að koma einum Íslendingi í hvora nefnd.  Af þessu má sjá að NSF löndin hafa sameiginlega mikla vigt inn í starfssemi LEN og það er staða sem við viljum gjarnan halda.

Til baka