Beint á efnisyfirlit síðunnar

Dadó í 50 metra skriðsundi á sínu fyrsta HM

13.12.2018

Sundkappinn Dadó Fenrir Jasmínuson úr SH keppti í sinni fyrstu grein á Heimsmeistaramóti núna áðan, þegar hann synti 50 metra skriðsund. Dadó, sem tók þátt í sínu fyrsta stórmóti á EM50 í Glasgow síðasta sumar, synti greinina á 0:22,51 sem er aðeins frá hans besta tíma, en hann synti á 0:22,29 á ÍM25 nú í nóvember. Hann lét umhverfið og aðstæðurnar trufla sig og náði sér ekki að fullu á strik í greininni.

50 metra sprettur er þannig sund að lítið sem ekkert má fara úrskeiðis í tækni og útfærslu. Dadó náði ekki að útfæra sundið sitt nægilega vel en þó sitja margir góðir punktar eftir sem hægt er að vinna með til að ná betri árangri á komandi mótum. Hann endaði í 54. sæti af 128 keppendum. 

Dadó er sundmaður sem hefur náð að springa út á undanförnum mánuðum og árum og mikils að vænta af honum haldi hann áfram æfingum og keppni. Í samtali eftir sundið sagðist Dadó stefna ótrauður á Smáþjóðaleikana í Svartfjallalandi næsta vor og svo auðvitað HM50 í Suður Kóreu í júlí 2019.

Íslandsmetið í greininni 0:22,29, á Dadó ásamt Árna Má Árnasyni, en Dadó jafnaði Íslandsmet Árna Más frá árinu 2009, á ÍM25 í nóvember. Heimsmetið á svo Florent Manadou 0:20,26 sett á HM25 í Doha 2014.

Úrslitasíða mótsins er hér

Myndirnar tóku Simone Costrvillari og Högni Ómarsson

Myndir með frétt

Til baka