Kristinn við sitt besta 100 metra fjórsundi
Kristinn Þórarinson úr Fjölni synti 100 metra fjórsund í nótt í undanrásum á HM25 í Kína á tímanum 0:54,57 Þetta er önnur grein Kristins á mótinu og honun gekk þokkalega í sundinu, var við sinn besta tíma (0:54,57) frá því á ÍM25 í nóvember. Eftir 200 metra fjórsundið á þriðjudag sagði Kristinn að það væri gott sund til að taka úr sér hrollinn og hann virðist hafa náð því að nokkru. Þeir sem þekkja Kristinn vita að hann er ekki að fullu sáttur nema að bæta sig, en hann náði að útfæra sundið sitt nokkuð vel, en náði ekki fullum hraða.
Kristinn endaði í 24. sæti í greininni en 38 sundmenn voru skráðir til leiks í 100 metra fjórsundi.
Íslandsmetið í greininni, 0:54,30, á Örn Arnarson frá því á EM25 í Helsinki 2006 en Heimsmetið, 0:50,26, á Vladimir Morozov frá Rússlandi sett fyrr á þessu ári.
Kristinn á eftir að synda 50 metra baksund hér í Hangzhou í Kína í dag.