Þröstur að standa sig vel í USA
Í síðustu viku fór fram Meistaramót háskóla í II. deild í sundi í Indianapolis í Bandaríkjunum. Ísland átti einn fulltrúa á þessu sterka móti, Þröst Bjarnason, sem keppti fyrir hönd McKendree University.
Þröstur hafði áunnið sér rétt til að keppa á mótinu ásamt um 500 öðrum sundmönnum frá 50 háskólum víðsvegar í Bandaríkjunum.
Þröstur keppti í 200y, 500y, 1000y og 1650y skriðsundi ásamt því að vera í boðsundsveit skólans í 4x200y skriðsundi.
Veit eru verðlaun fyrir fyrstu átta sætin á mótinu og þeir sem ná 9. – 16. sæti fá „All-American Honorable Mention Awards“. Þröstur bætti tímana sína í öllum greinum nema 1000y skriðsundi. Hann varð í 10. sæti í 500y skriðsundi á nýju skólameti og hann varð einnig í 10. sæti í 1000y skriðsundi.
Þröstur synti í A-úrslitum í 1650y skriðsundi og varð í 6. sæti í þeirri grein á tímanum 15:26,71, bætti tímann sinn og setti nýtt skólamet.
Þá náði boðsundsveitin sem hann var í 4. sætinu á mótinu.
Karlalið McKendree University lauk keppni í 8. sæti sem er bæting frá fyrra ári en þá varð karlaliðið í 15. sæti.