SH-ingar settu Íslandsmet
Helgina 16-17. mars fór Ásvallamótið fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði en þetta árlega mót Sundfélags Hafnarfjarðar er eitt af þeim mótum sem samþykkt er af FINA sem lágmarkamót fyrir Ólympíuleikana í Tokyo 2020.
17 félög kepptu og þar á meðal var eitt lið frá Kanada en synt var í 50m laug.
Eitt Íslandsmet féll á mótinu en það var í 4x50m skriðsundi í blönduðum flokki. Sveit SH, skipuð þeim Dadó Fenri Jasminusyni, Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttir, Steingerði Hauksdóttur og Kolbeini Hrafnkelssyni, synti á tímanum 1:39,95 og bættu þar með fjögurra ára gamalt met sem SH-ingar áttu einnig. Það met var sett í apríl 2015 og var jafnað ári seinna.
Þetta eru góð fyrirheit fyrir Íslandsmeistaramótið í 50m laug sem haldið verður helgina 5-7. apríl í Laugardalslaug.